Samninga­nefnd Eflingar gerir kröfu um það að lægstu laun starfs­manna Reykja­víkur­borgar hækki um 142.507 krónur á mánuði samnings­tímann 2019 til 2022. Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum samninga­fundi Eflingar í Iðnó í há­deginu.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá boðaði Efling Dag B. Eggerts­son, borgar­stjóra Reykja­víkur, á fundinn en hann þáði hins vegar ekki boðið. Í svari sínu til Sól­veigar Önnu sem birtist á vef borgarinnar í gær sagðist hann meðal annars ekki vilja grafa undan um­boði samninga­nefndar.

Sól­veig Anna á­varpaði fundinn í upp­hafi en síðar tók Viðar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Eflingar, við og kynnti hann til­boð fé­lagsins til Reykja­víkur­borgar. Tóku þau meðal annars fram að krafan taki mið af þeirri kröfu fé­lagsins um að kjör lág­launa­fólks hjá borginni verði leið­rétt sér­stak­lega.

Dagur B. þekktist ekki boð Eflingar.
Fréttablaðið/Stefán

At­kvæða­greiðsla um vinnu­stöðvun meðal fé­lags­manna hófst í gær. Hægt er að greiða at­kvæði á heima­síðu Eflingar og í hinum svo­kallaða Eflingar­bíl. Haft er eftir Sól­veigu á mbl.is að konsinga­þátt­takan sé góð. Þrjá­tíu prósent fé­lags­manna hafi tekið þátt í gær.

Í kynningu sinni á samnings­til­boði Eflingar lagði Viðar á það á­herslu á að um væri að ræða upp­hæðir sem setji ís­lenskan vinnu­markað ekki á hliðina. Um væri að ræða raun­hæfa, auð­fram­kvæman­lega og þekkta út­færslu. Um væri að ræða styrkingu á hug­mynda­fræði lífs­kjara­samningsins um sér­stakar hækkanir á lægstu laun án launa­skriðs.

Tók Viðar fram að samninga­nefndin fallist á 90 þúsund króna launa­hækkunina sem felst í lífs­kjara­samningnum. Mesta hækkunin á mánuði, sem samninga­nefndin leggur til, eru 52.507 krónur og er hug­myndin sú að sú hækkun komi fram í tveimur skrefum. Lægsta lækkunin um­fram 90 þúsund krónurnar eru 21.918.

„Þessar upp­hæðir eru ekki upp­hæðir sem munu setja ís­lenskan vinnu­markað á hliðina eða sprengja upp ís­lenskan vinnu­markað. Að halda því fram er hreint út sagt fá­sinna,“ sagði Viðar meðal annars á fundinum.

„Þessar tölur sem við erum að tala um hér eru sam­bæri­legar við til dæmis yfir­borganir sem við þekkjum og sjáum og eru mjög al­gengar, jafn­vel í lægst launuðustu störfunum á al­mennum vinnu­markaði, svo sem eins og bónusar og slíkt. Enn fremur þá er það al­gjör­lega inn­byggt í þessa nálgun að hún felur ekki í sér neitt sem að heitið getur höfrunga­hlaup, launa­skrið eða neitt slíkt,“ sagði Viðar á fundinum í Iðnó í dag.“

Viðar kynntist samningstilboð Eflingar.
Fréttablaðið/Stefán