Kristinn Jón Gíslason og verktakafyrirtæki hans, HD Verk, krefjast frávísunar einkamáls sem höfðað var gegn honum vegna eldsvoðans á Bræðraborgarstíg. Tekist verður á um kröfuna í haust en verði henni hafnað gæti aðalmeðferð hafist í byrjun næsta árs.

„Þegar málið fer í aðalmeðferð má búast við því að hún standi yfir í nokkra daga,“ segir Guðbrandur Jóhannesson, lögmaður 17 einstaklinga, sem telja sig eiga kröfu á Kristin og HD Verk. Kröfuhafarnir eru tíu fyrrverandi íbúar hússins og sjö aðstandendur þeirra þriggja sem létust í eldsvoðanum.

„Einsýnt er að taka þarf skýrslur af að minnsta kosti 17 aðilum, vitnum, matsmönnum sem gerðu matsgerðir um varanlegt líkamstjón þeirra aðila sem lifðu brunann af, auk sérfræðinga sem unnið hafa skýrslur um brunann, þar með talið um skort á brunavörnum og fleira,“ segir Guðbrandur.

Einstaklingarnir eru erlendir og eru sumir enn á landinu en aðrir farnir utan. Engar viðræður um sættir hafa átt sér stað.

Marek Moszcynski, sem kveikti eldinn, var metinn ósakhæfur í júní árið 2021. Um það leyti, ári eftir brunann, var hægt að meta varanlegt tjón og örorku þeirra sem lentu í brunanum. Krafan í heildina er 162 milljónir króna en hæsta einstaka krafan hljóðar upp á tæpar 30 milljónir.

Þó að langt sé í aðalmeðferð er málið þegar hafið fyrir dómstólum. Þegar hefur eitt kyrrsetningarmál farið alla leið til Hæstaréttar og verið samþykkt á öllum dómstigum, það er upp á 80 milljónir króna. Sækjendur hafa þó óttast um kröfu sína vegna slæmrar fjárhagsstöðu HD Verks og sölu fasteigna. Tvær aðrar kyrrsetningarbeiðnir hafa verið lagðar fram.