Íslendingur á fimmtugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi vikulangt gæsluvarðhald, eða til þriðjudagsins 2. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápinu í Rauðagerði.

Þá voru tveir úrskurðaðir í tveggja vikna farbann, eða til þriðjudagsins 9. mars, vegna málsins, en gæsluvarðhald yfir þeim rann út í dag.

Frétta­blaðið greindi frá því í gær að lög­reglan gerði kröfu um á­fram­haldandi gæslu­varð­hald yfir einum manni. Alls hafa níu manns, af sjö þjóð­ernum, verið dæmdir í gæslu­varð­hald vegna málsins.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er Albanskur karl­­maður, sem bú­­settur er hér á landi grunaður um að hafa orðið Armando Beqirai að bana í Rauða­­gerði þar síðustu helgi. Um­­­merki hafa fundist um að hleypt hafi verið af skot­vopni á heimili hans. Hann haf sig fram við lög­­reglu seint á þriðju­­dags­­kvöld, með að­­stoð verjanda síns.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hefur fram­kvæmt hús­leitir á nærri tuttugu stöðum, á heimilum, í sumar­húsum og fleiri stöðum á Norður­landi, Suður­landi og á höfuð­borgar­svæðinu vegna rann­sóknarinnar. Um helgina fóru fram yfir­heyrslur og úr­vinnsla gagna í rann­sókn lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu á morðinu.

Margeir Sveins­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn sem stýrir rann­sókn málsins, greindi frá því í gær að rann­sókn málsins miði vel miðað við um­fangið.