Héraðs­sak­sóknari fór ekki fram á að gæslu­varð­hald yrði fram­lengt yfir Halli Gunnari Er­lings­syni, sem úr­skurðaður var í gæslu­varð­hald á laugar­daginn vegna gruns um að hafa skotið á höfuð­stöðvar Sam­fylkingarinnar og bíl Dags B. Eggerts­sonar borgar­stjóra.

Þetta segir Kol­brún Bene­dikts­dóttir í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún segir að ekki hafi verið talin þörf á því að krefjast lengra gæslu­varð­halds yfir Halli en vildi ekki gefa upp á hverju á­kvörðunin var byggð.

Gæslu­varð­halds­úr­skurðurinn rann út í dag. Upp­haf­lega var Hallur úr­skurðaður í tveggja daga gæslu­varð­hald sem fram­lengt var til dagsins í dag og voru rök héraðs­sak­sóknara fyrir þeirri kröfu að maðurinn teldist hættu­legur. Skot­á­rásirnar, sem gerðar voru í síðari hluta janúar, eru rann­sakaðar sem brot gegn vald­stjórninni.

Hallur er á sex­tugs­aldri og er fyrr­verandi lög­reglu­maður. Hann var dæmdur árið 2003 til á­tján mánaða fangelsis­vistar fyrir kyn­ferðis­brot gegn þremur stúlkum á aldrinum ellefu til sex­tán ára sem allar tengdust honum fjöl­skyldu­böndum. Hann hlaut upp­reist æru árið 2010.

Svo virðist sem Hallur hafi ekki átt í neinum sam­skiptum við Sam­fylkinguna eða skrif­stofu flokksins né skrif­stofu borgar­stjóra áður en skot­á­rásirnar voru gerðar.
Ekki hefur náðst í verjanda hans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en samkvæmt frétt RÚV frá því á miðvikudaginn neitaði maðurinn sakargiftum.