Fimm konur sem fæddust í Belgísku Kongó og voru teknar frá mæðrum sínum með valdi, hafa höfðað mál á hendur belgíska ríkinu fyrir glæpi gegn mannkyni. Kongó var undir stjórn Belgíu frá 19. öld fram til ársins 1960 þegar landið öðlaðist sjálfstæði.

Nýlendustjórn Belga kom vægast sagt illa fram við íbúa og létu milljónir lífið.

Konurnar fimm, Léa, Monique, Simone, Noëlle og Marie-Josée, eiga hvíta feður og svartar mæður, nýlendustjórnin tók öll börn sem feður gengust ekki við og kom þeim fyrir á stofnunum.

Komurnar fara fram á 50 þúsund evrur, eða um 7,4 milljónir íslenskra króna, í bætur. Belgíska stjórnin hafnar því að um sé að ræða glæpi gegn mannkyni.

Belgíska ríkið baðst afsökunar á framferði sínu í Kongó fyrir tveimur árum.