Áform Reykjavíkurborgar um byggingu fimm smáhýsa í Laugardalnum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar eru aftur til meðferðar skipulagsyfirvalda.

Friðjón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Reita fasteignafélags, kveðst í erindi til borgarinnar gera „alvarlegar athugasemdir“ við deiliskipulagstillöguna. Hún sé „til þess fallin að hafa veruleg og neikvæð áhrif á uppbyggingaráform Reita á lóðinni Suðurlandsbraut 34“.

Athugasemdir Reita nú eru efnislega samhljóma erindi félagsins vegna sama máls á árinu 2020. Fulltrúar Reita og Reykjavíkurborgar skrifuðu í mars á þessu ári undir samkomulag um byggingu um 440 íbúða á Orkureitnum.

„Verði deiliskipu­lagið sam­þykkt með til­heyr­andi nei­kvæðum áhrif­um, áskilur lóð­ar­hafi sér rétt til­ að end­ur­skoða upp­bygg­ing­ar­á­form á Orku­reitn­um,“ skrifar Friðjón borginni.

„Ef úrræðið er ætlað heimilislausum með geðraskanir, áfengis- eða fíknivanda eða vandamál af öðrum toga sem getur haft neikvæð áhrif á umhverfið, meðal annars með tilliti til nálægðar við leik- og grunnskóla, íþróttamannvirki og almenn útisvæði þar sem mikil umferð barna er, er ljóst að það hentar illa á þessari staðsetningu,“ skrifar Friðjón.

„Áskilur lóðarhafi sér rétt til að endurskoða uppbyggingaráform á Orkureitnum eða krefjast bóta/afsláttar,“ segir Friðjón.

Í fjölmörgum athugasemdum er lýst ótta við áreiti. Margir eru því andvígir að opna fyrir íbúðabyggð á svæði til almannanota.

„Það er hætt við að mörgum af yngri kynslóðinni muni finnast óþægilegt návígið við tilvonandi íbúa þessa svæðis og muni jafnvel veigra sér við að vera ein á ferð um dalinn,“ skrifar Frímann Ari Ferd­inandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur.