Farið verður fram á áframhaldandi framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir mönnunum tveimur sem grunaðir eru í hryðjuverkamálinu svokallaða á morgun. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við Fréttablaðið.

Mennirnir hafa nú verið í gæsluvarðhaldi í nokkuð langan tíma og mega ekki vera það lengur en viku nema gefin verði út ákæra í málinu.

Ólafur gat ekki sagt til um hvort krafist yrði einnar viku í varðhald í viðbót, eða hvort ákæra yrði gefin út á morgun.

Verjendur mannanna hafa gagnrýnt lengd gæsluvarðhaldsins í fjölmiðlum. Mennirnir tveir hafa játað á sig vopnalagabrot, en virðast neita því að þeir hafi verið að skipuleggja hryðjuverk.