„Það er spenningur í hópnum, sumir hafa farið áður og eru að hitta gamla vini, svo eru aðrir sem eru að fara í fyrsta sinn og eru spenntir að stofna til nýrra kynna við færeyska söngbræður,“ segir Arnar Halldórsson, formaður Karlakórs Reykjavíkur.

Kórinn er nú í Færeyjum þar sem hann syngur á jólatónleikum með Tórshavnar Manskór í Vesturkirkjunni í Þórshöfn, þá syngja kórarnir einnig saman í messugjörð og halda tónleika í Friðrikskirkjunni í Toftum og nýjum glæsilegum hátíðarsal í Hojvik.

Viku síðar endurgjalda svo Færeyingar heimsóknina og syngja með Karlakór Reykjavíkur á aðventutónleikum í Hallgrímskirkju 10. og 11. desember. „Segja má að árlegir Aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur séu eitt af okkar aðalsmerkjum,“ segir Arnar.

„Þegar við byrjuðum á þessu fyrir rúmum 30 árum var þetta fáheyrður viðburður, en festi sig í sessi og við höfum staðið af okkur samkeppnina, þökk sé tryggum hópi „fylgjenda“ eins og það er kallað í dag,“ segir hann og bætir við að kórinn hafi notið þess að efnilegustu og fremstu einsöngvarar landsins hafa verið tilbúnir til að syngja með þeim.

„Lagavalið er yfirleitt blandað, hefðbundið og nýtt og óneitanlega hvolfist jólaandinn yfir mann við flutning á þessum sígildu sálmum og Ave Maria-útsetningum sem fylgt hafa þjóðinni,“ segir Arnar.

Hann segir vinasamstarfið við færeyska kórinn hafa hafist árið 1993. „Þá fór kórinn að vori til og hélt tónleika í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn, svo höfum við farið þrisvar sinnum í byrjun aðventunnar til þeirra og þeir komið til okkar að vori til,“ segir Arnar.

Í Karlakór Reykjavíkur eru um 80 meðlimir, alls er nú 61 þeirra í Færeyjum. Arnar segir það að syngja í kór bæði krefjandi og gefandi, söngurinn haldi heilasellunum við efnið.

„Meðan maður syngur, hvort sem er á æfingu eða á tónleikum, er maður ekki að hugsa um neitt annað, algerlega í núvitund og einbeittur. Félagsskapurinn er traustur og oft er stofnað til vináttusambanda sem endast út lífið.“