Fjársýsla ríkisins hefur undanfarin þrjú ár ofgreitt laun ýmissa ráðamanna, eða alls 260 einstaklinga.

Uppsöfnuð ofgreidd laun eru alls um 105 milljónir króna og krefur Fjársýsla ríkisins þá sem um ræðir um endurgreiðslu vegna mistakanna.

Frá þessu er greint á vef Fjársýslu ríkisins.

Mistökin komu í ljóst við undirbúning launabreytinga fyrir núverandi ár og verður endurgreiðslan ýmist dregin af launum eða stofnaðar verða kröfur í jöfnum hlutum í 12 mánuði.

Hátt settir ráðamenn

Meðal þeirra sem fengu ofgreidd laun eru þjóðkjörnir fulltrúar; forseti, alþingismenn og ráðherrar, hæstaréttar-, landsréttar-, og héraðsdómarar, saksóknarar, lögreglustjórar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri og ríkissáttasemjari.

Á vef Fjársýslu ríkisins segir að við framkvæmd hækkunar launa þessa hóps hafi ekki verið notast við lögbundið viðmið frá gildistöku laga um laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna ríkisins.

Launin hafi því hækkað meira en þau áttu að gera og að Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi tekið ákvörðun um leiðréttingu vegna málsins.