Lyfjablóm ehf. hefur sent ráðgjafarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers (PwC) kröfubréf þar sem krafist er útskýringa á fjölmörgum atriðum sem varða endurskoðunarþjónustu PwC sem félagið veitti Lyfjablómi á árunum fyrir hrun. Lyfjablóm krefst meðal annars útskýringa á 800 milljóna króna millifærslum í gegnum reikninga félagsins sem bókaðar voru sem „bankamistök Glitnis“ á árunum fyrir hrun.

Í kröfubréfinu telur Lyfjablóm að PwC hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og sé skaðabótaskylt vegna fjöldamargra atriða og eitt af þeim atriðum snýr að 800 milljóna króna tjóni sem Lyfjablóm ehf. telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar „fléttu“, eins og það er orðað.Í kröfubréfi Lyfjablóms, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er sagt að PwC hafi „vanrækt skyldur sínar“ og meðal annars orðið uppvíst að blekkingum og hylmingu er varðar fjármunalega gerninga félagsins og 800 milljóna króna fjármálaflétta í tengslum við fjárfestingafélagið Gnúp hf.

PwC neitar alfarið að hafa valdið Lyfjablómi tjóni á einhvern hátt og sakar Lyfjablóm um að fara með rangfærslur og dylgjur. Lyfjablóm hét áður Björn Hall­gríms­son ehf. (BH), sem var á sínum tíma með stærri eignarhaldsfélögum á Íslandi en BH var í gegnum fjöl­mörg dóttur­fé­lög stór hlut­hafi í Skeljungi, Ár­vakri, Nóa-Síríusi og Sjó­vá.

Málavextir snúa að því þegar félög í samstæðu BH fengu 800 milljónir króna inn á bankareikning sinn sem PwC útskýrði á hluthafafundi sem „bankamistök“, það er að Glitnir banki hefði fyrir mistök millifært 800 milljónir króna inn á reikninga dótturfélaga BH ehf. en svo „leiðrétt mistökin“ strax sama dag.

Bókhaldsgögn félagsins, sem voru færð af PwC og núverandi eigendur hafa undir höndum, sýna hins vegar að 800 milljónirnar komu ekki frá Glitni heldur fjárfestingafélaginu Gnúpi til að borga upp lán sem var tekið án vitundar þáverandi stjórnar BH. Í kröfubréfinu kemur fram að Lyfjablóm telji háttsemi PwC hafa verið saknæma og því bótaskylda þar sem forsvarsmönnum fyrirtækisins hafi ekki verið veittar réttar upplýsingar frá PwC strax í upphafi. Sem fyrr segir neitar PwC allri sök í málinu.

Forsvarsmenn Lyfjablóms segja að málið í heild sinni fari nú í stefnumeðferð þar sem PwC hafi í engu svarað efnislegum spurningum Lyfjablóms ehf.