Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hyggst leggja til að krár og skemmtistaðir fái að opna að nýju næstkomandi mánudag, 28. september. Frá þessu greindi Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Gerðar verða ákveðnar kröfur um hámarksfjölda gesta og ýmsan aðbúnað á téðum stöðum. „Þetta á eftir að útfæra og væntanlega verður höfð samráð um það,“ segir Alma. Opnunartími verður áfram óbreyttur og því ekki leyfilegt að hafa opið lengur en til ellefu á kvöldin.

„Það er áfram bent á að það er mælt með grímu notkun þar sem ekki er hægt að halda eins metra nálægðar regluna í heiðri,“ ítrekaði Alma.

Skemmtistöðum og krám var tímabundið þann 18. september síðastliðinn eftir að fjöldi smita voru rekin til staða á borð við Brewdog og Irishman Pub. Gripið var til lokunanna til að sporna gegn frekari útbreiðslu smitanna.

Sveiflur í tölum

„Við erum að sjá þessa daglegu sveiflur í fjölda smita en við vonum að bylgjan sé á niðurleið og við erum alla vega ekki að sjá veldisvöxt sem við myndum auðvitað að sjá ef faraldurinn fengi að ganga óheftur,“ segir Alma

33 ný smit greindust innanlands í gær og voru 14 í sóttkví við greiningu. Er þetta nokkur fækkun frá þriðjudeginum þegar 57 einstaklingar greindust með veiruna en þá var tekinn metfjöldi sýna hér á landi. 304 einstaklingar hafa greinst með veiruna hér á landi frá 15. september síðastliðnum.