Stofn­strengur milli Reykja­hlíðar og Hjarðar­haga slitnaði eftir stórt krapa­flóð í Jökuls­á á Fjöllum. Að því er kemur fram í til­kynningu frá Mílu er strengurinn í eigu annarra en um mikil­vægt stofn­sam­band hjá Mílu er að ræða.

Líkt og greint var frá fyrr í dag er nú ó­fært á hluta Hring­vegarins en mikið magn af krapa og ís­hröngli er á veginum milli Mý­vatns og Egils­staða. Á­standið verður metið frekar á morgun.

Lög­reglan á Norður­landi Eystra greindi frá því að krapa­flóðið hafi líkst snjó­flóði þar sem það var um þriggja metra djúpt og náði yfir um 200 metra af veginum.

Sam­kvæmt til­kynningu frá Mílu eru að­stæður erfiðar á svæðinu og því verður allri vinnu við strenginn frestað fram til morguns.