Samtökin Krakkaveldi stóðu fyrir mótmælum á Austurvelli í fyrradag til stuðnings hælisleitendum. Börnin sem stóðu fyrir verkfallinu tjölduðu á Austurvelli og furða sig á því að lögreglan hafi ekki mætt á vettvang.

Krakkaveldi eru samtök barna sem berjast fyrir eigin valdeflingu og því að rödd þeirra fái að heyrast í samfélaginu. Mótmælin í gær voru til þess að hvetja yfirvöld til að hlusta á raddir barnanna og hælisleitenda.

Væntanlega eru mótmælin viðbrögð við aðgerðum lögreglu á mótmælum hælisleitenda á dögunum þar sem kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu. Höfðu mótmælendur komið tjaldi fyrir á Austurvelli sem lögreglan fjarlægði. Síðar um daginn voru tveir mótmælendur handteknir og notaðist lögregla við piparúða í ryskingum við mótmælendur, en lögregla taldi að mótmælendur hafi ætlað að bera eld að mótmælaskiltum úr pappa sem þau höfðu meðferðis. 

Framganga lögreglu hefur vakið hörð viðbrögð og kallaði allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á sinn fund til að svara fyrir þær.