„Nú er drengurinn að útskrifast eftir tæplega tíu mánaða dvöl á Landspítalanum, sem eru vissulega stórkostleg kaflaskil og er dásamlegt,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi Stormur, en sonur hans, Árni Þórður, fékk læknabréf á fimmtudag þar sem hann var útskrifaður.

Nú tekur við eftirfylgni og eftirlit hjá Árna sem varð þrítugur á meðan hann barðist fyrir lífi sínu. Árni varð fyrir alvarlegri líffærabilun 19. desember síðastliðinn og var vart hugað líf á tímabili. Þjóðin hefur fylgst vel með baráttu fjölskyldunnar en Sigurður hefur leyft þjóðinni að fylgjast með á Facebook-síðu sinni.

Árni mun þurfa á næstunni að hitta meltingarsérfræðinga, fara í blóðprufur, í sneiðmyndatökur og vera í ströngu eftirliti. „Fyrir okkur foreldrana og fjölskylduna er þetta hálfgert kraftaverk. Það er eiginlega ekkert hægt að lýsa því öðruvísi.

Hann var svo svakalega veikur og það leist ekki öllum á blikuna á tímabili,“ segir Sigurður og tekur sér smá hlé.

„Ég ákvað að tjá mig á Facebook. Það var mín aðferð til að komast í gegnum þetta. Sumir gagnrýna það eflaust að opna sig svona, en ég bara trúi á gott fólk og það stóðst. Það var dásamleg og ólýsanleg tilfinning hvað svona góðar kveðjur geta stutt mann þegar öll sund virðast lokuð. Ég get aldrei þakkað þeim sem með einum eða öðrum hætti sýndu styrk og góðan hug. Þegar svona kemur upp þá er maður svo aleinn í eyðimörkinni, maður er alveg hjálparlaus því maður kann auðvitað ekkert í læknisfræðum. Getur ekkert gert og þarf að treysta á Guð og lukkuna, góða lækna og hjúkrunarfólk.

En ég fann að ég var ekki einn. Það voru svo margir sem sendu hlýja strauma og ég fann það standandi einn í myrkrinu. Það voru margir sem hringdu, sendu mér skilaboð og gáfu mér góð ráð og sendu góðar hugsanir. Nokkuð sem ég varð mjög meyr yfir.“

Hann segir það hafa verið erfitt að horfa upp á son sinn berjast fyrir lífi sínu. „Þetta var hryllingur. Þetta stóð yfir svo lengi og hann varð svo veikur svo lengi.“

Árni hafði nýverið klárað Tollskólann og var búinn með íþróttafræðina frá Laugarvatni. Hann var því hinn hraustasti og erfitt að útskýra hvað það var sem gerðist.

„Nú tekur við þetta eftirlit sérfræðinga á göngudeild meltingarsjúkdóma. Svo verður endurhæfing, en hann kann ýmislegt fyrir sér í að styrkja og efla. Þannig vill hann byrja, en endurhæfing þarf að ná yfir huga og hönd. Hann spyr sig eðlilega af hverju ég?“

Siggi getur vart lýst því hvað hann er glaður að ganga út í lífið á ný með Árna sér við hlið. „Ég verð að koma ítrustu þökkum til þeirra sem hjálpuðu okkur í gegnum þetta. Við stöndum í mikilli og ævarandi þakkarskuld, hvort sem það eru heilbrigðisstarfsmenn eða fólkið í landinu. Takk.“