Það þykir kraftaverki líkast að 18 mánaða gamalt barn sem féll út um glugga á fjórðu hæð fjölbýlishúss í Reykjavík síðastliðinn laugardag skyldi sleppa lítið eða að minnsta kosti ekki alvarlega meitt. Vitað er að barnið féll um 15 metra og lenti á mjúku undirlagi, blómabeði eða trjárunna.

Litlar upplýsingar er að fá um tildrög málsins, hvorki frá lögreglu né Barnaspítala Hringsins, en þetta mál leiðir hins vegar hugann að því hversu hætturnar leynast víða þegar börn eru annars vegar. Herdís Storgaard sérfræðingur í slysavörnum barna biður fólk um að huga sérstaklega vel að gluggum því þeir geti auðveldlega verið slysagildrur. Herdís verður gestur á Fréttavaktinni á Hringbraut í opinni dagskrá í kvöld. Hér má heyra brot úr viðtali við hana.