Sonur manns sem fékk grætt í sig erfðabreytt svínshjarta segir það hafa gefið fjölskyldunni von. Faðir hans er nú að jafna sig eftir aðgerðina en vonast til þess að hann geti brátt farið heim af spítalanum.

„Þetta er al­gert krafta­verk,“ segir David Bennet yngri, sonur David Bennet sem er að jafna sig eftir að­gerð eftir að erfða­breytt svíns­hjarta var grætt í hann.

Í við­tali við breska ríkis­út­varpið segir Bennet að að­gerðin hafi gefið fjöl­skyldunni hans von.

„Honum gengur gríðar­lega vel og lífs­mörk hans eru frá­bær með bara svíns­hjartanu,“ segir Bennet en læknar fjar­lægðu í gær ECMO vél sem hafði að­stoðað hjartað.

Bennet segir í við­talinu að faðir hans hafi legið inni á spítala frá því 10. nóvember og það hafi verið um jólin sem að læknarnir sögðu honum að það væri hans síðasti val­kostur að fá grætt í sig svíns­hjarta, annars ætti hann sex mánuði ó­lifaða.

„Ég hélt að hann væri með ó­ráði,“ sagði hann en að hann hefði svo rann­sakað þennan mögu­leika, séð að honum fylgdi tölu­verð á­hætta en að þetta væri raun­veru­legur mögu­leiki.

Hann sagði að lífs­líkur faðir hans hafi aukið að­eins en að auð­vitað sé um að ræða svíns­hjarta og að það sé lítið vitað um hvernig þetta muni ganga. Hann og fjöl­skyldan séu þakk­lát fyrir hvern dag sem þau fái með honum.

Við­talið er hægt að horfa á hér á vef breska ríkis­út­varpsins.