„Þegar ég hélt að árið 2020 gæti ekki orðið verra þá kviknar í heima hjá ömmu minni,“ skrifar Katla Marín Stefáns­dóttir í færslu á sam­fé­lags­miðlum. Amma hennar, Linda Braga, átti heima í Rimahverfi, í Grafarvogi, þar sem kviknaði eldur síðast­liðinn þriðju­dag. Hún var inni í íbúð sinni þegar hún varð vör við eldinn og náði að koma sér út áður en henni varð meint af.

„Ég kalla það krafta­verk að elsku amma mín náði að forða sér í gegnum eldinn, út úr litlu í­búðinni sinni,“ segir Katla. Í­búðin sjálf brann til kaldra kola og var engum munum við­bjargandi þegar búið var að slökkva eldinn.

Á­fall eftir eldinn

Katla segir fjöl­skylduna vera harmi lostna eftir eldinn enda hafi hann verð mikið á­fall. „Elsku amma mín, ég hef aldrei áður séð hana eins leiða og það sem hún hafði mestar á­hyggjur var, að nú gætum við ekki erft hlutina hennar.“

Þakk­læti er þó fjöl­skyldunni efst í huga þar sem Lindu varð ekki meint af. „Enda er hún ein hjarta­hlýjasta sál jarðarinnar, gjaf­mild og öllum góð,“ bætir Katla við.

Nánast engu var hægt að bjarga eftir eldsvoðann.
Mynd/Aðsend

Ekkert nema nátt­fötin eftir

„Ég brast ó­teljandi oft í grátur á mánu­dags­kvöld og gær­dag, því ég og öll fjöl­skyldan erum í til­finninga­rússí­bana.“ Amma þeirra sé á lífi en hún hafi þó misst al­eiguna. „Greyið átti ekkert nema nátt­fötin sín eftir brunann.“

Katla spurði Ömmu sína hvort hún fyndi eitt­hvað til eftir at­vikið. „Hún svaraði „bara í hjartanu” og brast í grát.“

Aðstoð vel þegin

Það hafi þó skipt sköpum hve hjálp­legt fólkið hafi verið í kringum fjöl­skylduna. „Ég er meyr og þakk­lát fyrir allan þann stuðninginn sem við fjöl­skyldan höfum fengið. Vá hvað máttur fólks er mikill og vá hvað fólk er til­búnir til þess að gefa af sér, hjálpa og senda hlýja strauma.“

Enn sé þó löng leið fram undan. „Við fjöl­skyldan hjálpumst að alla leið og ég trúi því að í desember eigi amma litla jóla­lega íbúð, með helling af ný­bökuðum smá­kökum til að bjóða upp á.“

Fjöl­skyldan tekur allri hjálp fagnandi og hefur verið stofnaður styrktar­reikningur í nafni Lindu. Á­huga­samir geta styrkt hana hér:

Reiknings­númer : 0537-14-005981
Kenni­tala: 250454-3339