Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra telur sig ekki í stakk búinn til að svara fyrir umdeild ummæli ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins um réttindi innflytjenda á vinnumarkaði er hann var spurður um þau á Alþingi síðdegis í dag.

Það var þingmaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, sem spurði ráðherrann um málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Að sögn þingmannsins féllu hin umdeildu ummæli á málþingi um málefni innflytjenda í Þjóðarspegli Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands fyrir helgi, en ráðuneytisstjórinn, Gissur Pétursson, var þar í pallborði í fjarveru félagsmálaráðherra sem tafðist á ríkisstjórnarfundi.

Ásmundur Einar sagðist ekki í stakk búinn til að svara fyrir ummælin, enda hefði hann hvorki verið á staðnum né heyrt upptöku af fundinum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þorsteinn sagði ummæli Gissurar á fundinum lýsa gríðarlegum fordómum og áhugaleysi á að sinna málefnum innflytjenda. Fólk sem sat fundinn hafi verið slegið yfir yfirlýsingum ráðuneytisstjórans.

„Ummæli [ráðuneytisstjórans] voru ansi sláandi þar sem kom fram að hann teldi ekki ástæðu til að fræða innflytjendur á vinnumarkaði um réttindi sín á vinnumarkaði, þar væri hver og einn á eigin ábyrgð að afla sér upplýsinga þar að lútandi. Hann taldi ekki ástæðu til að styrkja íslenskukennslu því innflytjendur nenntu ekki að læra tungumálið og hann tók það sérstaklega fram að gott væri hve auðvelt væri að losna við fólk af íslenskum vinnumarkaði, í þessu samhengi,“ sagði Þorsteinn og vísaði meðal annars til opins bréfs sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Sabine Leskopf ritaði til ráðherrans í kjölfar málþingsins.

Þorsteinn vísaði svo til gildandi framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda, sagði þessi ummæli fara þvert gegn henni og spurði félagsmálaráðherra hvort ráðuneytisstjórinn hefði með ummælum sínum verið að tjá stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda.

Ásmundur Einar sagðist ekki í stakk búinn til að svara fyrir ummælin, enda hefði hann hvorki verið á staðnum né heyrt upptöku af fundinum. Hann sagðist þó hafa haft veður af ummælunum og heyrt af pistli rituðum af borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Hann virtist þó hafa fengið töluvert frábrugðna útgáfu af því sem fram fór enda taldi hann þingmanninn hafa túlkað orð ráðuneytisstjórans á allt annan veg en ráðherra hafi fengið fregnir um.

Ráðherra svaraði hins vegar ekki spurningu þingmannsins um hvort og hvernig hann hygðist bregðast við ummælunum enda hafði hann knappan ræðutíma sem hann nýtti til að fara yfir ýmis mál sem ráðist hefði verið á kjörtímabilinu í málefnum innflytjenda, svo sem stefnu um samræmda móttöku flóttafólks.

Skoraði ráðherra á þingmanninn að benda á dæmi í framkvæmdinni þar sem þjónusta við umræddan hóp hefði verið skert eða gengi ekki nægilega langt.

Fréttin hefur verið uppfærð en í upphaflegri frétt var ekki vísað til höfundar hins opna bréfs um fjallað er um í fréttinni. Úr því hefur verið bætt.