Þau stórtíðindi bárust í dag um að verndandi arfgerð gegn riðu, ARR, hafi greinst í sex kindum á bænum Þernunesi í Reyðarfirði. Um er að ræða straumhvörf í sauðfjárrækt á Íslandi og baráttunni gegn riðuveiki sem hefur leikið íslenska bændur grátt í marga áratugi.

Hingað til hefur þurft að skera niður allt fé sem greinst hefur með riðu og brenna það eða urða. Árið 2020 kom upp hræðilegt ástand þar sem bændur á Norðurlandi vestra þurftu að slátra 2500 kindum og eina brennslustöð landsins hafði ekki getu til að taka á móti svo mörgum hræjum.

Með áframhaldandi rannsóknum og ræktunarstarfi verður mögulega hægt að útrýma riðu á Íslandi en kindur með ARR arfgerðina geta hvorki veikst né smitað annað fé af riðu.

Kindurnar sex á Austurlandi eru lykillinn að því að útrýma riðu á Íslandi. Arfgerðin fannst í hrútnum Gimsteini og ánum Njálu-Brennu, Njálu-Sögu, Hallgerði, Katrínu og Svandísi.

Síðustu tvær eru nefndar eftir ráðherrum; landbúnaðarráðherranum sjálfum Svandísi Svavarsdóttur og forsætisráðherranum Katrínu Jakobsdóttur.

Mikilvægustu kindur Íslands eiga heima á Þernunesi í Reyðarfirði.