Konan sem hafði á­kveðið í dag að krefjast þess fyrir dómi að vera látin laus úr nýja sótt­kvíar­hótelinu við Þórunnar­tún hætti við að leggja kröfuna fram. Annar ís­lenskur maður á hótelinu hefur þó á­kveðið að gera það og lagði lög­maður hans Ómar R. Valdimars­son kröfuna fyrir Héraðs­dóm Reykja­víkur í kvöld.

Ómar vonast til að héraðs­dómur taki málið fyrir strax í kvöld en málið er flýti­með­ferðar­mál, þar sem maðurinn telur sig hafa orðið fyrir frelsis­sviptingu. Líkt og með gæslu­varð­halds­mál verður dóm­stóllinn að taka það fyrir á innan við sólar­hring eftir að það er lagt fram.

Í litlu gluggalausu herbergi

Í kröfu­gerðinni segir að maðurinn hafi gert ráð­stafanir eftir komu sína til landsins til þess að ljúka sótt­kví á heimili sína „hvar hann hefur til þess full­komnar að­stæður“. Hann hefur þegar verið bólu­settur með fyrri skammt af bólu­efni Pfizer.

Maðurinn „hugðist taka fullan þátt í sótt­varnar­að­gerðum stjórn­valda. Hins vegar mót­mælir hann því, hvernig staðið hefur verið að málum. Þannig fékk um­bjóðandi minn tak­markaðar upp­lýsingar um hvernig til­högun sótt­kvíarinnar yrði, hvernig hann gæti matast eða yfir­gefið sótt­varnar­húsið til þess að fara í göngu­ferðir eða fara út sér til heilsu­bótar.“

Sótt­kvíar­hótelið við Þórunnar­tún opnaði í gær.
Mynd/Rauði krossinn

Hann dvelji nú á litlu hótel­her­bergi þar sem er ekki hægt að opna glugga eða komast undir bert loft. „Ein­hverra hluta vegna virðast svo þau skil­yrði, sem um­bjóðandi minn hefur þurft að sæta, vera strangari en hvað varðar aðra, sem í sótt­varnar­húsinu dvelja. Þannig hefur um­bjóðandi minn upp­lýsingar um það, að aðrir sem dvelja í húsinu hafi fengið að fara út í göngu­túra, á meðan vistinni hefur staðið,“ segir í kröfu­gerðinni.

Maðurinn sé þvert á móti ólíklegri til að vera smitaður

Ómar telur að ekki sé laga­heimild fyrir því að skikka manninn til að taka sótt­kví sína út á sótt­kvíar­hótelinu. Þannig sé verið að svipta hann frelsi og það megi stjórn­völd ekki gera nema sam­kvæmt heimild í lögum. Hann telur ekki næga heimild fyrir þessu í nýjum sótt­varna­lögum, sem sam­þykkt voru í janúar.

Lögin heimila að­eins að grípa megi til heil­brigðis­skoðunar, sótt­kvíar, ein­angrunar eða annarra við­eig­andi ráð­stafana „sem miða að því að hefta að smitaður ein­stak­lingur eða ein­stak­lingur, sem grunur leikur á að sé haldinn smit­sjúk­dómi, smiti aðra.“ Ómar segir engan grun leika á því að um­bjóðandi hans sé smitaður, enda hafi hann fengið nei­kvætt úr fyrri sýna­töku á landa­mærunum og sé kominn með einn bólu­efna­skammt Pfizer. Þannig séu þvert á móti minni líku á að hann sé smitaður en aðrir.