Konan sem hafði ákveðið í dag að krefjast þess fyrir dómi að vera látin laus úr nýja sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún hætti við að leggja kröfuna fram. Annar íslenskur maður á hótelinu hefur þó ákveðið að gera það og lagði lögmaður hans Ómar R. Valdimarsson kröfuna fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í kvöld.
Ómar vonast til að héraðsdómur taki málið fyrir strax í kvöld en málið er flýtimeðferðarmál, þar sem maðurinn telur sig hafa orðið fyrir frelsissviptingu. Líkt og með gæsluvarðhaldsmál verður dómstóllinn að taka það fyrir á innan við sólarhring eftir að það er lagt fram.
Í litlu gluggalausu herbergi
Í kröfugerðinni segir að maðurinn hafi gert ráðstafanir eftir komu sína til landsins til þess að ljúka sóttkví á heimili sína „hvar hann hefur til þess fullkomnar aðstæður“. Hann hefur þegar verið bólusettur með fyrri skammt af bóluefni Pfizer.
Maðurinn „hugðist taka fullan þátt í sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda. Hins vegar mótmælir hann því, hvernig staðið hefur verið að málum. Þannig fékk umbjóðandi minn takmarkaðar upplýsingar um hvernig tilhögun sóttkvíarinnar yrði, hvernig hann gæti matast eða yfirgefið sóttvarnarhúsið til þess að fara í gönguferðir eða fara út sér til heilsubótar.“

Hann dvelji nú á litlu hótelherbergi þar sem er ekki hægt að opna glugga eða komast undir bert loft. „Einhverra hluta vegna virðast svo þau skilyrði, sem umbjóðandi minn hefur þurft að sæta, vera strangari en hvað varðar aðra, sem í sóttvarnarhúsinu dvelja. Þannig hefur umbjóðandi minn upplýsingar um það, að aðrir sem dvelja í húsinu hafi fengið að fara út í göngutúra, á meðan vistinni hefur staðið,“ segir í kröfugerðinni.
Maðurinn sé þvert á móti ólíklegri til að vera smitaður
Ómar telur að ekki sé lagaheimild fyrir því að skikka manninn til að taka sóttkví sína út á sóttkvíarhótelinu. Þannig sé verið að svipta hann frelsi og það megi stjórnvöld ekki gera nema samkvæmt heimild í lögum. Hann telur ekki næga heimild fyrir þessu í nýjum sóttvarnalögum, sem samþykkt voru í janúar.
Lögin heimila aðeins að grípa megi til heilbrigðisskoðunar, sóttkvíar, einangrunar eða annarra viðeigandi ráðstafana „sem miða að því að hefta að smitaður einstaklingur eða einstaklingur, sem grunur leikur á að sé haldinn smitsjúkdómi, smiti aðra.“ Ómar segir engan grun leika á því að umbjóðandi hans sé smitaður, enda hafi hann fengið neikvætt úr fyrri sýnatöku á landamærunum og sé kominn með einn bóluefnaskammt Pfizer. Þannig séu þvert á móti minni líku á að hann sé smitaður en aðrir.