Hvidovre-sjúkrahúsið í Danmörku, sem greint hefur íslensk leghálssýni frá áramótum, hefur sagt upp samningi við Samhæfingarstöð krabbameinsskimana frá 1. janúar.

Ágúst Ingi Ágústsson, verkefnastjóri hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, segir þetta ekki hafa áhrif á bið eftir niðurstöðum úr leghálsskimunum.

Sýni verða áfram send til Danmerkur til greiningar þar til Landspítalinn uppfylli skilyrði. Verið sé að semja til bráðabirgða. Konur geti treyst því að fá áfram sínar niðurstöður.

Segir Ágúst Ingi samhæfingarstöðina hafa unnið upp hala sem myndaðist við yfirfærslu verkefnisins til Heilsugæslunnar. Geri hann ráð fyrir að senda niðurstöður í þessari viku til kvenna sem komu í sýnatöku í ágúst.

„Þegar sýnin koma til Landspítalans er ætlun allra að tryggja að jafnt og gott flæði verði á þessu. Við erum ekki á köldum klaka.“