„Öllum að óvörum hefur Boðflennan skorað mig aftur á hólm,” segir Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook síðu sinni. Hún greindist fyrst með krabbamein, sem hún kallar ætíð boðflennuna, í byrjun ársins 2019 og þurfti í kjölfarið að víkja af þingi til að takast á við veikindin.

„Ég taldi þessari glímu lokið,” segir Þórunn. Til stóð að takast á við ný verkefni og njóta lífsins. „Nú er ljóst að verkefnin verða öðruvísi en alltaf er ég með mína þéttu fjölskyldu og vini með mér.”

Krabbamein Þórunnar hefur nú greinst í lifrinni og er hún illa farin að sögn Þórunnar. Lyfjameðferð við meininu hófst þann 26. desember.

Jólin hjá fjölskyldunni voru öðruvísi þetta árið að sögn Þórunnar. „Ég var lögð inn á SAK 22. desember og dvel þar við einstaka umönnun hjá góðu fólki,” útskýrir hún.

„Keik vil ég mæta þessu verkefni eins og öðrum. Læknunum treysti ég til að lækna mig og mitt er að sjá um að hafa hausinn rétt skrúfaðan og horfa fram á við,” segir Þórunn sem hyggst hafa jákvæðnina að vopni sem endranær.

„Líklega mun ég segja fréttir af mér í Sérverkefni Þórunnar, FB hópi sem ég stofnaði í fyrra. Farið vel með ykkur og njótið lífsins.”

Ágætu vinir Öllum að óvörum hefur Boðflennan skorað mig aftur á hólm. Ég taldi þessari glímu lokið. Hress og kát ætlaði...

Posted by Þórunn Egilsdóttir on Sunday, December 27, 2020