Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) hafa lagt fram kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar dómsmálaráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum sem borist hafa ráðuneytinu frá rekstraraðilum spilakassa hérlendis er varða úrbætur og spilakort.

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa kallað eftir því að spilakössum á Íslandi verði lokað. Rekstraraðilar spilakassa hérlendis, Íslandsspil og Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ), hafa svarað því kalli með umræðu um spilakort sem virka þannig að spilarar spili með fyrir fram greiddum spilakortum. Þannig megi stjórna betur þeim fjárhæðum sem spilað er fyrir.

Í erindi sendu frá SÁS til dómsmálaráðuneytisins í febrúar er óskað eftir umræddum gögnum sem og öðrum erindum sem ráðuneytinu hafa borist frá leyfishöfum er snúa að rekstri spilakassa.

Í svari frá dómsmálaráðuneytinu sem dagsett er þann 22. mars kemur fram að á umræddu tímabili hafi ráðuneytinu borist erindi bæði frá Happdrætti Háskólans og Íslandsspilum. Neitað var að afhenda gögnin á grundvelli þess að þau innihaldi upplýsingar er varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni.

Dómsmálaráðuneytinu er veittur frestur til 26. apríl næstkomandi til að skila umsögn um kæruna og koma með frekari rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Þá hefur SÁS einnig óskað eftir því að úrskurðarnefndinni verði innan sama frests afhent gögnin sem kæran lýtur að.