Eftir rúman mánuð frá því að kötturinn Nóra slapp úr haldi starfs­manna Reykja­víkur­borgar hefur hún skilað sér til eig­enda sinna. Guð­mundur Felix­son, einn eig­endanna greinir frá þessu á Face­book síðu sinni.

„Reykja­víkur­borg fann köttinn okkar“ segir hann í færslunni. „Hún týndist í Laugar­dalnum og sást oft í Fjöl­skyldu­garðinum en hvorki starfs­fólki garðsins né okkur tókst að fanga hana, enda var hún orðin gríðar­lega hvekkt og hrædd við búr,“ segir Guð­mundur.

Starfs­menn borgarinnar fönguðu og fjar­lægðu Nóru í kjöl­far kvartana frá ó­sáttum ná­granna í byrjun júní. Eig­endur hennar voru ekki látnir vita að hún hefði verið fönguð.

Guð­mundur segir í færslunni að starfs­fólk Fjöl­skyldu­garðsins hafi gómað hana og komið henni heim til sín. „Hún malar og er á­nægð að vera heima hjá sér. Vill bara kúra og láta klappa sér,“ segir hann.

Guð­mundur segir Nóru vera með skrámu á nefinu en að öðru leyti sé hún sjálfri sér lík. „Við heimilis­fólkið ætlum al­deilis að dekra við hana næstu daga,“ segir hann.

„Við erum þakk­lát fyrir hjálpina sem við fengum frá starfs­fólki Reykja­víkur­borgar á meðan Nóra var týnd. Starfs­fólkið á svæðinu sá til þess að hún fengi að borða og þau létu okkur vita þegar til hennar sást,“ segir Guð­mundur.

Guð­mundur segist vonast til þess að ævin­týri Nóru verði til þess að Reykja­víkur­borg breyti verk­laginu þegar kemur að svona málum.