Birta Birgisdóttir auglýsti eftir Zlatan kisunni sinni á Facebook-síðunni Týndir kettir fyrir stuttu en Zlatan hafði þá ekki skilað sér heim í um það bil viku.
Daginn eftir að Birta auglýsti eftir Zlatan hafði maður samband við hana og tjáði henni að hann hefði fundið Zlatan dáinn í minkagildru á smábátahöfninni í Reykjavík.
Maðurinn hafi fundið eiganda gildrunnar og fengið hann til að losa köttinn úr og síðan hefði hann einfaldlega jarðað hann án þess að leita uppi eiganda hans.
„Það hefði verið svo auðvelt að finna mig, hann var örmerktur og með GPS-ól og hann átti augljóslega einhvern eiganda. Það hefði ekki verið neitt mál að komast að því hver átti hann,“ segir Birta.
Birta segir Zlatan hafa farið út miðvikudagskvöldið í síðustu viku. Sólarhring síðar hafi hún verið farin að hugsa hvar hann væri en hefði ekki haft miklar áhyggjur þar sem hann átti sögu um að fara í burtu í einn til tvo daga .

Auglýsti eftir Zlatan á Facebook
Þar sem Zlatan var með GPS-ól gat Birta séð staðsetningu hans og sá hún að hann var á smábátahöfninni sem var ekki óeðlilegt. Birta segir að henni hafi þó þótt athyglisvert hversu lengi hann hafði verið á sama stað en stuttu síðar tók hún eftir smá hreyfingu.
„Ég hugsaði, jæja hann hefur bara verið sofandi og nú er hann búinn að færa sig og allt er í góðu,“ útskýrir Birta og bætir við að hún hafi farið að sofa á fimmtudagskvöldinu og svo þegar hún hafi ætlað að kanna með Zlatan morguninn eftir hafi hún séð að GPS-tækið var hætt að uppfæra sig og að engin uppfærsla hafði verið um nóttina.
„Þá fer ég að hafa áhyggjur og byrja að leita af honum,“ segir Birta en þá hafði Zlatan verið í burtu í um það bil viku. Hún hafi haft miklar áhyggjur og því ákveðið að auglýsa eftir Zlatan á Facebook.
„Strax snemma morguninn eftir hefur maður samband við mig og segir mér að hann hafi fundið hann á smábátahöfninni fyrir svona viku síðan í minkagildru. Hann hafi fundið manninn sem átti gildruna og hann hafi komið og losað köttinn úr gildrunni og síðan jarðað hann bara,“ segir Birta og heldur áfram:
„Ég er í raun ótrúlega heppin að þessi maður sem fann hann, að hann hafi fundið hann og veit að þetta gerðist og er svo að fylgjast með því hvort að einhver auglýsi eftir honum og hefur samband við mig.“
Mikil viðbrögð við færslunni
Birta uppfærði auglýsinguna á Facebook og skrifaði: „Fannst látinn í gildru á smábátahöfninni“ sem vakti mikil og hörð viðbrögð meðlima hópsins.
„Ég vissi að þetta var ótrúlega slæmt en var ekki búin að átta mig á því hvað þetta myndi snerta ofsalega marga. Það var engum sama um að þetta hefði gerst og það var ótrúlega gott í hjartað að sjá það,“ segir Birta.
Að sögn Birtu hefur vinur hennar og nágranni staðið í stappi við eigenda gildrunnar og meðal annars fengið það staðfest frá Matvælastofnun um að gildrurnar séu ólöglegar.
Þá neiti maðurinn, eigandi gildranna, að segja Birtu hvar hann jarðaði Zlatan. Hún óttast að fleiri kettir sem hafa dáið með sama hætti séu jarðaðir á sama stað.