Iðnaður Kötluvikur, sem EP Power Minerals hyggst nýta, er mjög verðmætur og getur lækkað kolefnisspor byggingariðnaðar í öllum heiminum.
Fyrirtækið hyggur á efnistöku á vikri á Mýrdalssandi austan og suðaustan við Hafursey, svokallaðri Háöldu. Vikurinn verður svo fluttur til Evrópu þar sem hann verður notaður sem íblöndunarefni í framleiðslu á sementi.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu, segir að allur sementsiðnaður í heiminum sé að leita að svona efni til að bæta kolefnisspor sements- og byggingariðnaðar. „Vikur er mjög verðmætur. Kolefnisspor af sementi er alveg gríðarlega stórt og fer versnandi út af orkuverði í heiminum. Svona efni er eiginlega stærsta vonin í því,“ segir Jón Haukur.
Keyrt verður með vikurinn til Þorlákshafnar þar sem hann verður settur um borð í skip sem siglir með hann til sementsframleiðenda. Vikrinum er ætlað að koma í stað kolaösku úr kolaorkuverum sem notuð hefur verið sem íblöndunarefni í sement um áraraðir.

Miðað við áætlanir ætti vikurlagið á Mýrdalssandi austan og suðaustan Hafurseyjar að duga til efnistöku í rúmlega 100 ár.

„Þetta er eitt af stóru málunum til að minnka umhverfisáhrif af mannvirkjum. Steypan er langstærstur hluti af kolefnisspori mannvirkja í dag og þetta er einn af stóru póstunum til að minnka þau áhrif.

Á heimsvísu er þetta gríðarlega stórt umhverfismál og þess vegna eru allir leiðandi aðilar að snúa sér að svona efnum,“ segir Jón Haukur.