Þjófóttur köttur í Vesturbænum að nafni Emma hefur sannarlega slegið í gegn eftir að eigendur birtu myndir af skrautlegum ránsfeng.

Stelur leikföngum frá nágrönnum

Hjónin Arna Björk H. Gunnarsdóttir og Christopher Hickey eru eigendurnir og segja Emmu vera kostulega kisu.

„Allt dótið sem er á myndinni er það sem hún hefur komið með heim, ég held að okkur þyki fyndnast þessi skópör sem hún hefur komið með. Skondið að fara aftur og sækja hinn skóinn,“ segir Arna Björk í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir daglegt brauð að fara í skilaferðir með ýmis leikföng sem Emma steli frá nágrönnunum.

„Ég þarf að fara í skilaferð með leikföngin seinna í dag og skila böngsum og skóm til nágranna okkar,“ segir hún.

Ránsfengur Emmu. Sandalar, barnaskór, ólar af öðrum köttum, stakur sokkur, boltar og bangsar.
Mynd: Aðsend
Emma er kostuleg kisa.
Mynd: Aðsend

Með sama veiðieðli og forveri sinn

Hjónin hafa átt Emmu í tæp ár en hún er fædd í apríl 2019. Þar áður áttu þau kött að nafni Óskar sem hafi einnig farið í ránsferðir um hverfið. Hann hafi stolið húfum, vettlingum og alls konar loðnu dóti og fært eigendum sínum.

Hann dó í bílslysi og fékk því Emma aldrei að hitta hann.

„Ég sver að við ölum þetta ekki upp í köttunum okkar. Það er þó skárra að hún ræni dóti heldur en drepi fugla,“ segir Arna í góðu gamni.

„Virðist sem hún hafi sama veiðieðli og Óskar því hún kemur líka heim með loðin leikföng og alls konar dótir. Skemmtilegar kisur.“

Emma týndist fyrir nokkrum vikum og fóru þá Arna Björk og Christopher í dauðaleit að henni í marga daga. Til allrar lukku fannst hún að lokum í geymslu hjá nágranna sínum á Víðimel, níu dögum síðar. Sagan endar þó ekki þar.

„Í gær fékk ég sko skilaboð frá fjölskyldu í sama húsi að Emma hafi stolið hvolpasveitarböngsum frá þeim!“ segir hún og hlær.

Emma tók heim með sér flotta inniskó.
Mynd: Aðsend
Hvolpasveitarbangsarnir frá nágrönnunum.
Mynd: Aðsend