Nokkrir drengir undir lögaldri urðu uppvísir að því að kasta flugeldi inn um bréfalúgu á íbúðarhúsnæði í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um síðustu helgi. Gjörðin hafði þær afleiðingar að eldur kviknaði í mottu í anddyrinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Snar í snúningum

Húsráðandi var heima við þegar flugeldinum var kastað inn og brást að sögn lögreglu hratt við og braut mottuna saman yfir flugeldinn. Því næst kastaði hann logandi mottunni út.

Lögreglumenn ræddu alvarlega við ungmennin og aðstandendur þeirra. Drengirnir báðu í kjölfarið húsráðendur afsökunar en athæfi þeirra var tilkynnt til Barnaverndarstofu.