Tillaga að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt í skipulags- og samgönguráði í síðustu viku og vísað til borgarráðs. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, er ósáttur við tillögur meirihlutans en Eyþór segir að lauslega megi reikna með að tillögurnar muni kosta rúma átta milljarða króna á ári.

„Mér finnst þessar tillögur afar illa ígrundaðar og kostnaðurinn við að koma þeim í framkvæmd er vanreiknaður svo um munar.

Fram kemur í áliti, sem verkfræðiprófessorinn emeritus Jónas Elíasson og umferðarverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason gerðu, að áætla megi lauslega samfélagslegan kostnað við aukningu á ferðatíma vegna hraðlækkananna um 8,2 milljarða króna á ári,“ segir Eyþór.

Um umhverfisáhrifin segir í áliti Jónasar og Þórarins: „Mæld rykmengun mun lækka eitthvað á þeim götum þar sem hraðinn lækkar. Munurinn jafnast fljótlega út vegna dreifingar í loftinu vegna iðustreymis.“

„Þessar tillögur koma á sama tíma og ljóst er að tímarammar um Borgarlínu munu ekki standast og ljóst er að framkvæmdir við hin ljósastýrðu gatnamót við Bústaðaveg og Arnarnesveg þar sem mikill umferðarþungi er muni ekki klárast á þessu ári eins og áætlað var.

Þannig liggur fyrir að engar stórar framkvæmdir á stofnbrautum muni klárast á yfirstandandi kjörtímabili. Það væri skiljanlegra ef þessar tillögur kæmu fram þegar ferlið við Borgarlínu væri komið lengra og framkvæmdir á stofnbrautum væru lengra á veg komnar,“ segir borgarfulltrúinn.