Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar segir mikil­vægt að kostnaður við fyrir­hugaða sýna­töku og greiningu á Kefla­víkur­flug­velli verði ekki hindrun fyrir ferða­menn. Margt er ó­ljóst um framkvæmd sýnatökunnar á Kefla­víkur­flug­velli sem verður í boði fyrir þá sem koma til landsins eftir 15. júní. Ráð­herra leggur á­herslu á að sýnin kosti ekki meira en 50 þúsund hvert, nú­verandi gjald­skrá Land­spítala gerir ráð fyrir að þau kosti um helmingi minna og yfir­læknir sýkla- og veiru­fræði­deildar sagði við Frétta­blaðið fyrr í vikunni að hann gerði ráð fyrir að hvert sýni kostaði um 10 þúsund krónur. Kostnaðurinn sem nefndur hefur verið er því á bilinu 10 til 50 þúsund krónur.


Ó­ljóst er hver muni standa straum af kostnaði við sýna­tökuna og greiningu þeirra en for­sætis­ráð­herra og heil­brigðis­ráð­herra gáfu upp þá mögu­legu sviðs­mynd á þriðju­daginn, þegar af­létting ferða­tak­markana var kynnt, að ríkið myndi greiða fyrir aðgerðina, að minnsta kosti til að byrja með. Ef vel gengi væri þá ráð­legt að skoða hvort ferða­menn yrðu sjálfir rukkaðir fyrir. Hvorugur úti­lokaði þó að gripið yrði strax til þess ráðs að rukka ferða­mennina eins og Austur­ríkis­menn gera nú en þar kostar 190 evrur að fara í sýna­töku við komu til landsins. Það gera rétt tæpar 30 þúsund krónur.

Ríkisstjórnin kynnti fyrirhugaðar afléttingar ferðatakmarkana í Safnahúsinu síðasta þriðjudag. Mörgum spurningum um aðgerðirnar er enn ósvarað.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

50, 27 eða 10?


Í skipunar­bréfi heil­brigðis­ráð­herra til verk­efnis­stjórnar sem á að undir­búa fram­kvæmd sýna­tökunnar í Kefla­vík kemur fram að miðað skuli við að kostnaður við hvert sýni verði ekki meiri en 50 þúsund krónur. Þá skuli miðað við að tekin verði allt að þúsund sýni á dag. Því gæti farið svo að dag­legur kostnaður við að­gerðina færi upp í 50 milljónir.


Í sam­tali við Frétta­blaðið á mið­viku­dag sagði Karl Gústaf Kristins­son, yfir­læknir sýkla- og veiru­fræði­deildar, að hann teldi að eitt sýni við nú­verandi að­ferðir Land­spítala kostaði um tíu þúsund krónur í fram­kvæmd. Í sam­tali við Bylgjuna í dag sagði hann þó að nú­verandi gjald­skrá spítalans miðaði við að eitt sýni kosti 27 þúsund krónur.

Frétta­blaðið heyrði í Karli í dag til að spyrjast nánar fyrir um kostnaðinn og hvers vegna svo mikið mis­ræmi væri í við­miðum hans, spítalans og ráð­herra. „Þessi 27 þúsund kall miðast við gjald­skrána sem spítalinn er með. Það er hins vegar alveg ljóst að kostnaðurinn er eitt­hvað minni því gjald­skráin er úr­elt,“ segir Karl.


Hann telur þá að hann hafi jafn­vel hlaupið að­eins á sig með því að gefa upp tíu þúsund króna við­miðið: „Það var bara á­giskun. Þetta er minna en 27 þúsund en ég veit ekki alveg hve mikið minna. Ég þori eigin­lega ekki að segja ein­hverja á­kveðna tölu því ef ég segi hana og svo verður kostnaðurinn meiri þá fæ ég bágt fyrir,“ út­skýrir hann á léttum nótum. Kostnaðurinn myndi svo lækka enn meira ef spítalinn festir kaup á af­kasta­meira tæki eins og verið er að skoða.


Verk­efnis­stjórnin sem heil­brigðis­ráð­herra skipaði til að kanna alla þessa þætti og undir­búa fram­kvæmdina í Kefla­vík hefur vinnu sína á mánu­daginn og á að vera búinn að skila ítar­legri verk- og tíma­á­ætlun á­samt kostnaðar­á­ætlun ekki seinna en á mánu­deginum 25. maí.

Kostnaður má ekki fæla ferðamenn frá


Sam­tök ferða­þjónustunnar segja brýnt að fá það á hreint hver kostnaðurinn við fram­kvæmdina verði og hvort ferða­mennirnir eigi að greiða sjálfir fyrir sýnin sín. „Það verður að stilla þessu þannig upp að kostnaðurinn sé ekki hindrun fyrir ferða­menn. Það er lykil­at­riði,“ segir Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar í sam­tali við Frétta­blaðið.


„Það verður að horfa til þess hvað fólk er að borga fyrir flug­miðann og hvar er lík­legt að ein­hver kostnaðar­mörk fyrir þau liggi. Þau eru tölu­vert fyrir neðan 50 þúsund krónurnar, ég get að minnsta kosti sagt þér það,“ segir hann. „Við getum kannski byrjað að tala saman þarna í kringum þessar 27 þúsund krónur og unnið okkur saman niður þaðan.“


Hann segir að ferða­þjónustu­fyrir­tækin séu nú á fullu að upp­lýsa þær ferða­skrif­stofur og ein­stak­linga sem áttu þegar bókaðar ferðir hjá þeim á næstu mánuðum. Út­færsla stjórn­valda á sýna­tökunni í Kefla­vík gæti skipt sköpum fyrir ferða­þjónustuna.


„Það skiptir máli að það liggi sem fyrst fyrir hver kostnaðurinn verði og hver á að greiða hann svo hægt sé að koma því til skila til við­skipta­vina okkar úti,“ segir hann að lokum.