Meðalkostnaður íslenskra sveitarfélaga vegna umhverfismála hækkaði um 43 prósent í fyrra sem er mesta hlutfallslega hækkun allra málaflokka milli ára hjá sveitarfélögum.

Vífill Karlsson hagfræðingur segir að þótt þessi staðreynd geti gefið vísbendingu um að sveitarfélög séu að bregðast við áhyggjum samtímans af ógnum tengdum umhverfismálum í framtíðinni kunni nokkur hluti skýringarinnar að liggja í átaki sveitarfélaga varðandi opin svæði og annað tengt.

„Það er líklegt að umhverfismálaþátturinn sem lýtur til dæmis að garða- og frístundasvæði vegi þarna nokkuð. Mér dettur í hug að mörg þessara verkefna sem sveitarfélögin réðust í vegna Covid hafi einfaldlega tengst svona svæðum,“ segir Vífill og bætir við:

„Það þarf líka að benda á vægi heildarkostnaðar í þessu samhengi. Kostnaður vegna umhverfismála er fremur lágt hlutfall af heildar­útgjöldum sveitarfélaga, eða eitthvað um tvö prósent,“ segir Vífill.