„Þetta er náttúru­lega allt sami hluturinn hvað sem þú kallar það, þjónustu­gjald, inn­heimtu­gjald eða svo­leiðis,“ segir Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna, um leyndan kostnað sem birtist oft í verði, gjarnan undir nöfnum eins og þjónustu­gjald, til­kynninga­gjald, greiðslu­gjald og svo fram­vegis.

Frétta­blaðið fékk á­bendingu um ein­stak­ling sem ók inn í bíla­kjallara til að sækja maka sinn í vinnu, ein­stak­lingurinn greiddi 124 krónur í gjald fyrir við­veru í kjallaranum og 1.800 krónur í þjónustu­gjald.

Breki segir þetta þekkjast. „En það er frelsi í verð­lagningu hér, þannig að í rauninni máttu rukka hvað sem er, fyrir hvað sem er, fyrir þá þjónustu sem þú veitir. Það sem við leggjum á­herslu á er að það sé alveg kýr­skýrt, áður en þú þiggur þjónustuna, hvað hún kostar.“

Neyt­enda­sam­tökin skoða reglu­lega ýmis gjöld.

„Við höfum í gegnum tíðina sett út á ýmis gjöld, til dæmis í banka­kerfinu, inn­heimtu í jarð­göngum og svo fram­vegis. Við erum sí­fellt að skoða þetta og það er sí­fellt verið að benda okkur á eitt­hvað og oft er það þannig að fyrir­tæki taka vel í okkar á­bendingar og lag­færa eða breyta gjald­töku,“ segir Breki.