Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna móttöku ferðamanna er langtum hærri en tekjurnar samkvæmt niðurstöðum ábatagreiningar sem starfshópur Reykjavíkurborgar um mótun ferðastefnu lét framkvæma.

Greiningin var kynnt í borgarráði í gær og þar kemur fram að árið 2018 hafi beinar og óbeinar tekjur borgarinnar af ferðaþjónustu numið tæpum 10,5 milljörðum króna en kostnaður rúmum 18,7 milljörðum. Kostnaður umfram tekjur var því rúmlega 8,3 milljarðar.

Líta ekki á kostnað sem tap

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og formaður starfshópsins, segir borgina ekki líta á kostnað umfram tekjur sem tap en að niðurstaða greiningarinnar sé sláandi. „Við sem erum að reka sveitarfélögin vitum að við erum ekki að fá miklar tekjur af ferðamönnum,“ segir hún.

„Þó svo að sveitarfélögin séu pakkfull af fólki þá renna litlar tekjur til sveitarfélaganna. Bæði virðisaukaskattur og gistináttagjald rennur til ríkisins,“ segir Þórdís Lóa.

Óbeinar tekjur

Þær tekjur sem í greiningunni teljast sem beinar tekjur til borgarinnar eru fasteignagjöld fyrirtækja, aðgangseyrir í sundlaugar og á listasöfn og tekjur Höfuðborgarstofu. Óbeinar tekjur eru útsvar og fasteignagjöld þeirra starfsmanna sem sinna ferðaþjónustu. Þá telst rekstur Höfuðborgarstofu og styrkveitingar sem beinn kostnaður. „Óbeinn kostnaður er svo kostnaður við grunnþjónustu þeirra starfsmanna sem bætast í borgina með fjölgun ferðamanna, svo sem vegna skóla og leikskóla,“ segir Þórdís.

„Samband sveitarfélaga hefur unnið að því að gistináttagjaldið fari til sveitarfélaganna og það er inni í ríkisstjórnarsáttmálanum en það virðist enginn vera að flýta sér og við viljum bara benda á það augljósa í þessu,“ segir hún.

„Þó að þessi mikli kostnaður fylgi ferðaþjónustunni er hún vel þess virði en eðlilegra væri að sveitarfélagið fengi til sín stærri hlutdeild af tekjunum sem ferðamaðurinn býr til,“ segir Þórdís Lóa. – bdj

Kostnaður vegna móttöku ferðamanna fer fram úr tekjum.