Heildarkostnaður Guðmundar Andra Ástráðssonar við rekstur Landsréttarmálsins fyrir bæði dómdeildinni sem dæmdi málið í mars 2019 og fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), nam rúmum 9,6 milljónum króna auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar vegna ferða, hótelgistinga og þýðinga að kröfu MDE sem nam 1,2 milljónum króna. Þetta kemur fram í dómkröfum Guðmundar Andra eins og þeirra er getið í dómi yfirdeildar réttarins.
Til samanburðar greiddi ríkið erlendum sérfræðingum sem komu að málsvörn íslenska ríkisins 36 milljónir króna, að því er fram kemur í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem birt var á vef Alþingis á þriðjudag.
Í svarinu er ekki metinn sérstaklega almennur kostnaður embættis ríkislögmanns sem annaðist málsvörn ríkisins fyrir MDE. Aðeins er getið um aðkeypta þjónustu hinna erlendu sérfræðinga.
Yfirdeild MDE dæmdi ríkið til að greiða Guðmundi Andra 20 þúsund evrur í málskostnað, eða 3.164.000 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti (á tvær milljónir króna). Honum höfðu áður verið dæmdar 15.000 evrur með fyrri dómi MDE í mars 2019 en þær komu ekki til greiðslu þar sem ríkið óskaði endurskoðunnar yfirdeildarinnar.
Segja má að Guðmundur Andri eða eftir atvikum lögmaður hans, hafi sjálfur borið allan kostnað af þeirri ákvörðun ríkisins, enda aðeins um þriðjungur þess kostnaðar sem hann hafði af rekstri málsins í Strassborg verið dæmdur honum í málskostnað þrátt fyrir að hann hafi unnið málið bæði fyrir almennu deildinni og yfirdeildinni.

Samkvæmt fyrrnefndu svari ráðherra er kostnaður ríkisins vegna skipunar dómara við Landsrétt tæpar 150 milljónir króna, en þá er ekki allt talið. Í svarinu er ekki talinn kostnaður vegna starfs dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt, auglýsingakostnaður, þá er heldur ekki talinn kostnaður ríkislögmanns sem fyrr segir, né heldur kostnaður ákæruvaldsins við rekstur málsins fyrir innlendum dómstólum. Einnig vantar kostnað við setningu dómara við Landsrétt tímabundið vegna fjögurra dómara sem ekki gátu komið að dómstörfum eftir dóm MDE.
Enn á eftir að falla til kostaður vegna málsins. Til að mynda á eftir að ljúka að minnsta kosti sextán málum, af sama meiði og búið er að skjóta til MDE. Það sama gæti átt við um mál sem kunna að verða endurupptekin vegna málsins.
Þrátt fyrir fyrrnefndan þýðingarkostnað sem getið er um í svari ráðherra hefur íslensk þýðing á dómi yfirdeildar ekki enn verið birt á vef stjórnarráðsins. Þýðingu dómsins er ekki lokið að sögn Hafliða Helgasonar, upplýsingafulltrúa dómsmálaráðuneytisins. Hann verði birtur á vef Stjórnarráðsins um leið og þýðingu er lokið en ekki liggur fyrir hvenær það verður.
Málskostnaður Guðmundar Andra og Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, verjanda hans, var um 9,6 milljónir króna samkvæmt opinberum gögnum. Vilhjálmur vildi ekki tjá sig um málið er Fréttablaðið ræddi við hann.