Verk­efnis­stjórn, sem heil­brigðis­ráð­herra skipaði, telur ger­legt að fram­kvæma að fram­kvæma sýna­töku og greiningar á CO­VID-19 fyrir þá sem koma til landsins eftir 15. júní. Kostnaðar­mat hópsins gerir ráð fyrir að verk­efnið kosti tæpar 160 milljónir í tvær vikur ef þrjár flug­vélar koma til landsins á dag.


Ljóst er að kostnaður við verkið verður minni eftir því sem fleiri sýni eru tekin í einu. Hópurinn telur að við nú­verandi að­stæður geti Land­spítali ekki tekið og greint fleiri en 500 sýni á dag. Til að auka af­kasta­getuna þurfi að bæta tækja­búnað, mönnun og að­stöðu og verði það gert verði hægt að taka og greina þúsund sýni á dag í fyrsta lagi um miðjan júlí. Hópurinn brýnir þá fyrir yfir­völdum að út­vega fleiri sýna­töku­sett því að­eins séu tíu þúsund sett.

Sýni dýrara ef aðeins ein vél kemur


Gefnar eru upp þrjár sviðs­myndir í kostnaðar­matinu; ef hingað kæmu 3 flug­vélar á dag og tekin væru 500 sýni á hverjum degi gerir hópurinn ráð fyrir því að heildar­kostnaður með ó­fyrir­séðum kostnaði sé tæpar 160 milljónir króna á tveimur vikum. Hvert sýni myndi þá kosta rúmar 22.500 krónur.


Ef hingað kæmi að­eins ein flug­vél á dag með tvö hundruð far­þegum væri kostnaður við hvert sýni um 33.500 krónur og heildar­kostnaður fyrir tvær vikur tæpar 94 milljónir. Ef að­eins ætti að taka og greina hundrað sýni á dag myndi hvert sýni kosta tæpar 50 þúsund krónur og heildar­kostnaður fyrir tvær vikur tæpar 74 milljónir. Því gæti hvert sýni orðið allt að tvisvar sinnum ó­dýrara eftir því sem fleiri sýni eru tekin og greind í einu.

Eins og greint hefur verið frá er stefnt að því að bjóða þeim sem koma til landsins eftir 15. júní að fara í sýna­töku við komu inn í landið í stað þess að fara í tveggja vikna sótt­kví. Ó­víst er hver stæði straum af kostnaðinum; ríkið eða þeir sem koma til landsins.


Heil­brigðis­ráð­herra skipaði verk­efnis­stjórn í kringum undir­búning fram­kvæmdarinnar sem Hildur Helga­dóttir, hjúkrunar­fræðingur og verk­efna­stjóri á Land­spítala, leiðir. Hún kynnti niður­stöður hópsins fyrir heil­brigðis­ráð­herra og dóms­mála­ráð­herra í gær en skýrslan var svo kynnt á fundi ríkis­stjórnar í morgun. For­sætis­ráð­herra mun leiða næstu skref.