Landsfundur Sjálfstæðismanna var settur í gær klukkan 16:30 en athygli vekur að þeir sem ætla sér að sækja landsfund Sjálfstæðisflokksins núna um helgina þurfa að greiða 15 þúsund krónur til þess að tryggja sér aðgöngumiða.
Veittur er þó 4 þúsund króna afsláttur til námsmanna og öryrkja sem greiða 11 þúsund krónur vilji þeir fá aðgang. Taka skal þó fram að uppselt er á fundinn.
Kosið verður um formann flokksins á landsfundi Sjálfstæðismanna um helgina og eigast þeir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson við í keppninni um sætið. Bjarni hefur leitt flokkinn síðan 2009 og leitast hann nú eftir að tryggja sér sætið á ný.
Vænta má því spennandi kosningu um helgina en mjótt virðist á munum milli Guðlaugs og Bjarna. Kosið verður um formannssætið á morgun, sunnudag um hádegisleytið.