Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson telur ekki endilega víst að skörun Eurovision-keppninnar við kosningarnar í dag muni hafa áhrif á kjörsókn. Hitt er hins vegar víst að hann mun, sem önnur kjölfestan í kosningasjónvarpi RÚV, missa af keppninni þetta árið.

„Við vonum að við vinnum í Eurovision og að það verði 90 prósenta kjörsókn,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus, þegar kenningar um að hætt sé við því að söngvakeppnin muni draga úr kjörsókn í borgar- og sveitarstjórnarkosningum dagsins eru viðraðar.

„En þetta er skemmtileg tilgáta og skemmtileg pæling. Auðvitað getur það gerst að fólk er bara einfaldlega með hugann við annað, en sem betur fer er það nú þannig að það eru ennþá til Íslendingar sem geta bæði gengið og tuggið tyggigúmmí á sama tíma.“

En ætlar þú að horfa á Eurovision?

„Ég á mjög erfitt með það því við verðum uppi í stúdíói með svona rennsli og æfingar á Eurovision-tímanum en annars horfi ég alltaf á Eurovision,“ segir Ólafur sem verður sem fyrr kjölfestan í kosningasjónvarpi RÚV ásamt Boga Ágústssyni.

„Ég horfði á stelpurnar komast áfram og hafði nú verið hallur undir hitt lagið, með Reykjavíkurdætrum, en þetta er lag sem venst vel og sumum finnst þetta öðruvísi og halda að þetta eigi séns. Það er vonandi, því það er svo breytilegt í Eurovision hvers konar lög eru í tísku þetta og þetta árið.“

Lítil Eurovision-áhrif

Kjörsóknin virðist síðan sveiflast eftir svipuðum lögmálum milli ára, óháð tískusveiflum í söngvakeppninni. „Í síðustu tvennum sveitarstjórnarkosningum hefur hún verið lægri en í áratugi, eða í kringum tvo þriðju,“ segir Ólafur þegar hann er spurður hvort hafa þurfi áhyggjur af dræmri kjörsókn í dag.

„Hún hafði lengi verið í kringum 80 prósent í sveitarstjórnarkosningum en hefur lækkað síðan. Hún var lengi um í kringum 90 prósent í alþingiskosningum en hefur undanfarið verið í kringum 80.

Þessi kjörsókn hefur farið minnkandi á Íslandi, bæði í þingkosningum og í sveitarstjórnarkosningum en hún er miklu lægri víðast annars staðar.“

Hefði verið betra ef Eurovision væri ekki í dag?

„Það er hugsanlegt en þetta hefur nú ekki breytt mjög miklu. Það var Eurovision á kjördag í alþingiskosningum 2007 og þá fór kjörsóknin örlítið niður, um 1 til 2 prósent, en svo fór hún aftur upp í næstu kosningum. Þannig að ef það voru einhver Eurovision-áhrif þá voru þau lítil.

Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 var kjörsóknin síðan mun minni en hún hafði verið 2006 og þá sögðu sumir: „Heyrðu þetta eru bara Eurovision-áhrif.“ En svo í kosningunum 2014 hélt kjörsóknin áfram að minnka og þá var ekkert Eurovision, þannig að kannski voru áhrifin 2010 ekki Eurovision-áhrif heldur bara almenn tilhneiging kjörsóknar í sveitarstjórnarkosningum til að fara minnkandi.“