Ruglingur varð með talin at­kvæði í dönsku þing­kosningunum sem fóru fram í gær. Í Frederiks­havn-kjör­dæminu voru til­kynntar rangar niður­stöður, þar sem tveimur flokkum var ruglað saman.

At­kvæðum Dan­merkurdemó­krata og Einingar­listans var ruglað saman. Sam­kvæmt niður­stöðum sem til­kynntar voru í gær átti Einingar­listinn að hafa fengið 980 at­kvæði í kjör­dæminu en Dan­merkurdemó­kratar 104. Raunin var þó önnur og áttu niður­stöðurnar að vera á víxl, Dan­merkurdemó­kratar með 980 at­kvæði og Einingar­listinn 104.

Einingar­listinn er á vinstri væng stjórn­málanna og Dan­merkurdemó­kratar á þeim hægri, svo með þessum breytingum fær hægri­ blokkin tæp­lega 900 at­kvæðum fleiri en talið var í upp­hafi.

Danska ríkis­sjón­varpið greinir frá þessu en ó­víst er hvort færsla at­kvæðanna hafi á­hrif á sæta­skipan á þinginu, sem myndi hafa miklar af­leiðingar í för með sér.

Vinstri ­blokkin, með Mette Frederik­sen for­sætis­ráð­herra Dan­merkur í for­svari fékk minnsta mögu­lega meiri­hluta þegar at­kvæði voru talin í gær, eða 90 þing­menn. Í heildina sitja 179 þing­menn á danska þinginu.

„Við lögðum hart að okkur og gerðum okkar besta en mis­tök hafa verið gerð og það eru mann­leg mis­tök. Nú erum við í talningu og klukkan eitt [kl. tólf að íslenskum tíma] reiknum við með að niður­staða liggi fyrir,“ sagði Marianna Lessél, kjör­stjóri, sem harmar mis­tökin.

Mette Frederik­sen fór á fund til Margrétar Dana­drottningar klukkan 11 í dag til að til­kynna henni niður­stöður þing­kosninganna, Mette Frederik­sen vonast til þess að halda um­boði sínu til þess að mynda nýja ríkis­stjórn en flokkur hennar, Jafnaðar­manna­flokkurinn, fékk sína bestu kosningu í ára­tugi, þvert á spár.

Það er ljóst að ef þing­sæti færist frá vinstri­ blokkinni, yfir til hægri, að vinstri ­blokkin tapi sínum meiri­hluta.

Fréttin hefur verið uppfærð.