Ruglingur varð með talin atkvæði í dönsku þingkosningunum sem fóru fram í gær. Í Frederikshavn-kjördæminu voru tilkynntar rangar niðurstöður, þar sem tveimur flokkum var ruglað saman.
Atkvæðum Danmerkurdemókrata og Einingarlistans var ruglað saman. Samkvæmt niðurstöðum sem tilkynntar voru í gær átti Einingarlistinn að hafa fengið 980 atkvæði í kjördæminu en Danmerkurdemókratar 104. Raunin var þó önnur og áttu niðurstöðurnar að vera á víxl, Danmerkurdemókratar með 980 atkvæði og Einingarlistinn 104.
Einingarlistinn er á vinstri væng stjórnmálanna og Danmerkurdemókratar á þeim hægri, svo með þessum breytingum fær hægri blokkin tæplega 900 atkvæðum fleiri en talið var í upphafi.
Danska ríkissjónvarpið greinir frá þessu en óvíst er hvort færsla atkvæðanna hafi áhrif á sætaskipan á þinginu, sem myndi hafa miklar afleiðingar í för með sér.
Vinstri blokkin, með Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur í forsvari fékk minnsta mögulega meirihluta þegar atkvæði voru talin í gær, eða 90 þingmenn. Í heildina sitja 179 þingmenn á danska þinginu.
„Við lögðum hart að okkur og gerðum okkar besta en mistök hafa verið gerð og það eru mannleg mistök. Nú erum við í talningu og klukkan eitt [kl. tólf að íslenskum tíma] reiknum við með að niðurstaða liggi fyrir,“ sagði Marianna Lessél, kjörstjóri, sem harmar mistökin.
Mette Frederiksen fór á fund til Margrétar Danadrottningar klukkan 11 í dag til að tilkynna henni niðurstöður þingkosninganna, Mette Frederiksen vonast til þess að halda umboði sínu til þess að mynda nýja ríkisstjórn en flokkur hennar, Jafnaðarmannaflokkurinn, fékk sína bestu kosningu í áratugi, þvert á spár.
Það er ljóst að ef þingsæti færist frá vinstri blokkinni, yfir til hægri, að vinstri blokkin tapi sínum meirihluta.
Fréttin hefur verið uppfærð.