Kosningaklúðrið í Borgarnesi gæti leitt til breytinga á nýjum kosningalögum sem taka gildi næstu áramót. Þetta segir Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar, í samtali við Fréttablaðið.
Undirbúningsnefnd er nú á lokametrunum að reyna að ráða fram úr þeirri flækju sem kom upp vegna endurtalningar í Norðvesturkjördæmi. Nefndin fundaði í dag og kemur svo aftur saman á morgun og mun kynna von bráðar tillögur sínar, en það gæti verið eftir nokkra daga eða vikur.
Athyglisverðar upplýsingar hafa komið upp á yfirborðið frá því að nefndin hóf athugun sína:
- Yfirkjörstjórn hóf endurtalningu í Borgarnesi áður en talningarfólk mætti á svæðið
- Þrír starfsmenn hótelsins tóku myndir inni í salnum eftir að kjörstjórn fór af vettvangi
- Kjörgögn voru ekki geymd í lokuðum kössum eða undir innsigli að lokinni talningu
- Bakdyrnar að talningarsalnum voru opnar um nóttina „til að lofta út“
- Átta seðlar sem tilheyrðu Sjálfstæðisflokknum og einn sem tilheyrði Framsóknarflokknum voru óvart lagðir í bunka Viðreisnar
- Tveir seðlar til viðbótar frá Sjálfstæðisflokknum voru óvart lagðir í aðra bunka
Skoðuðu snemma uppkosningu
Ein möguleg niðurstaða er uppkosning í kjördæminu en nefndin óskaði snemma eftir upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu um þær lagareglur sem gilda um uppkosningu. Undirbúningsnefnd hefur þó ekki rætt mikið um þennan valmöguleika, nema að þetta sé möguleiki í stöðunni sem gæti komið til ef niðurstaða kjörbréfanefndar og Alþingis verði að ógilda kosningu í kjördæminu. Þá yrði kosningaathöfnin sjálf endurtekin, þ.e. kjördagur og talning, en allir aðrir liðir eins og framboðslistar yrðu óbreyttir frá 25. september.
„Ég er ekki að fara að spekúlera mikið núna,“ sagði Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, áður en hann settist niður með blaðamanni Fréttablaðsins að loknum fundi í dag. Hann vill lítið gefa upp um málið meðan þjóðin bíður með öndina í hálsinum eftir endanlegum niðurstöðum úr þessum blessuðu kosningum sem fóru fram 25. september.

Birgir segir nefndina á lokametrunum þó enn sé einhver gagnaöflun eftir.
„Ég myndi meta það þannig að við erum langt komin en við eigum eftir tölverðar umræður innan nefndarinnar og gagnaöflun er ekki hundrað prósent lokið.“
Hann segir ljóst að eftir málsmeðferð nefndarinnar þurfi að fara í gegnum nýju kosningalögin, sem voru samþykkt í vor og taka gildi næstu áramót, og athuga hvort tilefni sé til að breyta einhverju.
„Auðvitað er eðlilegt að fara í gegnum alls konar þætti sem varða framkvæmd kosninga og máta þá reynslu og þær upplýsingar sem við höfum við þessi nýsamþykktu lög áður en þau taka gildi. Við myndum gera það fyrir áramót.“
Náið þið að kára nefndarstörf undirbúningsnefndar fyrir áramót?
„Já já,“ svarar Birgir. „Nýju lögin fela í sér margvíslegar breytingar, þar á meðal um aukið hlutverk landskjörstjórnar um leiðbeiningar og samræmingu og þess háttar.“
Eftirlit líka?
„Það er eftir sem áður gert ráð fyrir því að yfirkjörstjórnir séu sjálfstæðar en það eru margvíslegar breytingar á þessu lagaumhverfi sem gert er ráð fyrir að taki gildi næstu áramót.“
„Við vinnum bara á okkar hraða en við hins vegar gerum okkur grein fyrir því að óháð stjórnarmyndun er nauðsynlegt að þessi nefnd ljúki störfum.“
Finna ekki fyrir pressu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið um helgina að ekki væri hægt að mynda stjórn fyrr en niðurstöður undirbúningsnefndar liggja fyrir.
„Það er fræðilegur möguleiki að það verði kosið upp í Norðvesturkjördæmi og það er nú einu sinni þannig að ríkisstjórnir eru myndaðar að loknum kosningum,“ sagði Katrín.
Aðspurður sagði Birgir að nefndarmenn finni ekki fyrir pressu frá starfandi ríkisstjórn að klára málið.
„Í grunninn eru þetta tvö aðskilin mál, annars vegar myndun ríkisstjórnar og hins vegar starf nefndarinnar. Við vinnum bara á okkar hraða en við hins vegar gerum okkur grein fyrir því að óháð stjórnarmyndun er nauðsynlegt að þessi nefnd ljúki störfum.“
Engin pressa?
„Nei við verðum ekki vör við það.“