Efling hefur boðað til atkvæðagreiðslu um tillögu að ótímabundnum verkföllum fyrir starfsmenn í einkareknum skólum og sveitarfélögum öðrum en Reykjavík í næstu viku.

Gert er ráð fyrir að verkföllin hefjist mánudaginn 9. mars og munu þau taka til á fimmta hundrað manns. Þetta kemur fram í tilkynningu stéttarfélagsins. Atkvæðagreiðslu lýkur annan laugardag.

Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg munu greiða atkvæði í næstu viku um verkföllin. Í tillögunum er gert ráð fyrir að verkföll verði ótímabundin.

Flestir félagsmanna í Kópavogi, en engir starfsmenn á leikskólum

Flestir félagsmanna sem verkfallið nær yfir starfa í Kópavogi, en einnig Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og sveitarfélaginu Ölfusi og eru ýmist fólk í umönnunarstörfum, velferðarþjónustu og verkamenn en ekki starfsmenn á leikskólum, að sögn Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, í samtali við fréttastofu RÚV.

„Um er að ræða samúðarverkfall með verkfalli Eflingarfélaga hjá Reykjavíkurborg. Tillaga um verkfallsboðun er lögð fram að höfðu samráði við trúnaðarmenn á einkareknu skólunum, sem lýstu eindregnum stuðningi við tillöguna á fundi í gærkvöldi, 20. febrúar,“ segir í tilkynningu.

Samninganefnd félagsmanna Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga lýsti viðræður hjá Ríkissáttasemjara árangurslausar á samningafundi í dag og samþykkti í kjölfar þess að bera tillögu um boðun vinnustöðvunar undir atkvæði félagsmanna.