Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Reykjavík mun kjósa um tillögu uppstillingarnefndar að framboðslistum fyrir alþingiskosningarnar, á laugardaginn.

Í fundarboði kemur fram að tillaga uppstillinganefndar að heildstæðum listum fyrir bæði kjördæmi verði borin upp til samþykktar, sem þýðir að ekki verður kosið um nöfn einstakra frambjóðenda eða sæti þeirra á listunum.

Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir þykja líklegastar til að leiða lista Reykjavíkurkjördæmanna. Uppstillingarnefndin hefur hins vegar staðið frammi fyrir þeim vanda að aðeins þrír karlar voru meðal tíu vinsælustu frambjóðenda í könnun sem framkvæmd var meðal flokksmanna.

Jóhann Páll Jóhannsson var einn karla meðal efstu fimm frambjóðenda og Ágúst Ólafur Ágústsson og Guðmundur Ingi Þóroddsson meðal tíu efstu. Ágúst hefur þegar hafnað boði nefndar um þriðja sæti.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að þrýst hafi verið á Dag B. Eggertsson borgarstjóra að taka að sér forystu í öðru hvoru kjördæminu.

„Já, það hefur verið nefnt af ýmsum, sem er þakkarvert,“ segir Dagur en segist alltaf gefa sama svarið: „Ég er ekki á leið í þingframboð.“