Gengið var til þingkosninga í Eþíópíu í gær og eru þær taldar hinar fyrstu um árabil sem mögulega gætu talist frjálsar eða lýðræðislegar. „Það er spenna hérna,“ segir Brynjólfur Þorvarðsson, sem er búsettur í eþíópísku borginni Bahir Dar og vinnur þar við hugbúnaðargerð. „Fólk bíður þess með óþreyju að sjá úrslitin. Þegar maður er búinn að búa við kúgun allt sitt líf og síðan opnast allt í einu möguleikinn á frelsi og lýðræði þá vill fólk helst að hlutirnir gerist bara strax. Ég sá það sama þegar ég var í Egyptalandi fyrir kosningarnar þar í arabíska vorinu.“

Upphaflega stóð til að kosningarnar færu fram í ágúst í fyrra en þeim var frestað vegna kórónaveirufaraldursins. Hluti landsmanna getur jafnframt ekki kosið þar sem kosningum er áfram frestað í 110 af 547 kjördæmum landsins vegna hernaðarátakanna í Tígre-héraði.

Þótt þetta séu frjálsari kosningar en hafa viðgengist í landinu segir Brynjólfur litlar líkur á öðru en að stjórnarflokkur landsins, Velmegunarflokkurinn, og forsætisráðherrann Abiy Ahmed, vinni öruggan sigur. „Það er enginn annar pólitískur leiðtogi sem kemst í hálfkvisti við hann. Þetta er afbragðsgáfaður maður, kemur mjög vel fyrir og reynir að stunda pólitík sem höfðar til framfara og uppbyggingar. Hann vill sameina landið, sem er samsett af ólíkum þjóðarbrotum sem alltaf virðast ramba á barmi borgarastríðs. Margir sjá hann sem einu leiðina til að bjarga landinu undan því.“

Tígre-stríðið rangtúlkað

Abiy komst til valda fyrir þremur árum ásamt hópi ungra stjórnmálamanna sem leystu af hólmi stjórnarklíku úr Þjóðfrelsishreyfingu Tígranna (TPLF), sem hafði farið með völd í landinu í um 27 ár. „Margir Orómóar, sem eru stærsti þjóðflokkurinn, héldu að hér væri kominn baráttumaður sem myndi berjast fyrir þeirra stöðu innan ríkisins,“ segir Brynjólfur. „En hann hefur alls ekki gert það, heldur hefur hann lagt áherslu á sameiningu Eþíópíu og vill ekki heyra minnst á þjóðarbrotin. Mjög margir Orómóar eru því fúlir út í hann en margir Amharar, sem eru næststærsta þjóðarbrotið, treysta honum hins vegar ekki og halda að hann dragi taum Orómóa í laumi.“

Eþíópíumenn í röð á kjörstað í Addis Ababa.
Fréttablaðið/Getty

Brynjólfur segir eina stærstu spurningu kosninganna vera hvort vikið verði frá þjóðflokkamiðaðri sambandsstjórn sem nú er innsigluð í stjórnarskrá landsins og stefnt að svæðisbundinni sambandsstjórn. Hugmyndin um Eþíópíu sem eitt þjóðerni hafi lengst af ekki verið sterk en hún kunni nú að vera að styrkjast vegna atburða liðinna ára og sér í lagi vegna afbökunar erlendra fréttamiðla á hernaðarátökunum í Tígre-héraði.

„Umheimurinn virðist ekki gera sér grein fyrir því að fyrrum einræðisherrar landsins úr TPLF reyndu þarna að ná tökum í landinu aftur með hernaðaraðgerðum,“ segir Brynjólfur. „Það er ekki nokkur vafi á að TPLF byrjaði stríðið í Tígre með laumuárás á fámennari herafla ríkisstjórnarinnar í nóvember í fyrra. TPLF hefði að öllum líkindum getað unnið stríðið og hertekið Addis Ababa ef stjórn Abiy hefði ekki verið búin að endurnýja flugher landsins í leyni stuttu eftir að hann komst til valda. En alþjóðasamfélagið hefur snúið þessu á hvolf og lætur eins og Abiy hafi skipað tilefnislausa árás á einhverja vanmáttuga héraðsstjórn. Hér er ekki einn einasti maður sem telur það rangt að hafa farið í stríð gegn TPLF. Það er frekar að það hefði átt að gerast fyrr.“

Brynjólfur telur að sú tilfinning að umheimurinn sé á móti Eþíópíu hafi þjappað landsmönnum saman og stuðlað að sams konar þjóðareiningu sem Abiy vill skapa. Þar leiki einnig deilur um eþíópísku Endurreisnarstífluna í Nílarfljóti stórt hlutverk. Egyptar hafi frá upphafi mótmælt byggingu stíflunnar vegna áhyggja af því að hún kunni að valda vatnsskorti þar sem Níl rennur gegnum Egyptaland. Bandaríkin hafi lagst á sveif með Egyptum í deilunni og þetta hafi aukið við tilfinningu Eþíópíumanna um að heimurinn standi á móti þeim. „Egyptar fá ekkert um þetta gert,“ segir Brynjólfur. „Skoðaðu allar stíflurnar í Tyrklandi. Fer Írak kannski fram á að stjórna þeim?“

Eftirlitsmenn á vegum Afríkusambandsins fylgjast með framkvæmd kosninganna. Eftirlitsmönnum Evrópusambandsins hafi hins vegar verið vísað frá vegna krafa sem þeir gerðu um ákveðið forráð yfir framkvæmd kosninganna. Brynjólfur segir kröfur þeirra hafa verið langt fram úr hófi og hafi jafnvel borið keim af gamaldags nýlenduhyggju Evrópuveldanna.