Íranir ganga að kjörkössum á föstudaginn til að kjósa sér nýjan forseta. Nýi forsetinn mun þá taka við af Hassan Rouhani, sem gegnt hefur embættinu frá árinu 2013 og er nú ókjörgengur. Klerkastjórn landsins er ekki þekkt fyrir lýðræðislega stjórnarhætti en landsmenn fá þó að kjósa sér forseta á fjögurra ára fresti. Sá galli er á gjöf Njarðar að forsetinn fer með vald sitt í umboði æðstaklerks landsins, sem getur gefið út stjórnartilskipanir og leyst forsetann úr embætti að vild.

Af um 600 framboðum sem bárust heimilaði Verndararáð Írans aðeins sjö að gefa kost á sér í kosningunum. Sá þeirra sem mest hefur farið fyrir er Ebrahim Raisi, núverandi forseti hæstaréttar Írans. Að því er kemur fram í frétt Aljazeera hefur Verndararáðið verið sakað um að búa svo um hnútana að Raisi eigi auðveldara að vinna með því að synja öðrum nafntoguðum landsmönnum um framboðsleyfi.

Kosningabaráttan hefur litast af bágum efnahagi Írans vegna bandarískra refsiaðgerða og kórónuveirufaraldursins. Þá eru íbúar langþreyttir eftir tíð mótmæli sem hafa skekið landið síðastliðin ár. Vegna takmarkaðra valda forsetaembættisins og lýðræðishalla í valinu á forsetanum sjá margir landsmenn sér jafnframt ekki hag í að greiða atkvæði í kosningunum. Raunar virðast margir landsmenn líta á það sem sitt eina úrræði til að láta óánægju í ljós að sniðganga kosningarnar. Samkvæmt frétt BBC hefur hlutfall landsmanna sem hyggjast kjósa lækkað verulega frá því að framboðendur voru kynntir.