Kjósa þarf aftur í for­seta­kosningum í Brasilíu, eftir að ljóst varð að Jair Bol­sonaro, sitjandi for­seti landsins, hlaut mun betri kosningu en út­göngu­spár höfðu gefið til kynna. Til þess að vinna kosninguna í fyrstu um­ferð og komast hjá seinni um­ferð þurfti annar hvor fram­bjóð­endanna að tryggja sér meira en 50 prósent at­kvæða. Lula hlaut 48,4 prósent en Bol­sonaro 43,2 prósent. Reu­ters greinir frá.

Kosningarnar fóru raf­rænt fram í gær. Sam­kvæmt fyrstu tölum hafði Bol­sonaro tæp­lega fimm prósent for­skot á Lul, en þær tölur byggðust að mestu leyti á niður­stöðum frá dreif­býlli svæðum landsins, en þar nýtur sitjandi for­seti meiri stuðnings en á þétt­býlli svæðum.

Það for­skot fór minnkandi eftir því sem at­kvæði bárust úr stærri borgum landsins. Þegar búið var að telja 99,9 prósent at­kvæða hafði Bol­sonaro hlotið 43,2 prósent at­kvæða og Lula 48,4 prósent.

Þar sem hvorugur fram­bjóðandi hlaut hreinan meiri­hluta at­kvæða verður kosið á ný þann 30. októ­ber næst­komandi.

Sam­kvæmt út­göngu­spám á laugar­dag var Lula spá tæp­lega 51 prósent at­kvæða, en Bol­sonaro einungis 36-37 prósent.

Í sam­tali við brasilíska frétta­miðilinn UOL fyrir helgina sagði José Rober­to de To­ledo, pólitískur pistla­höfundur og greinandi, að ef til seinni kosninga kæmi hefði það hræði­legar af­leiðingar í för með sér, þar sem mikið of­beldi hefur átt sér stað í landinu í að­draganda kosninganna.