Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, flaug til Strassborgar í gær til fundar með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), varðandi næstu skref við útgöngu Bretlands úr ESB.

Breska þingið mun í dag kjósa um fyrirliggjandi Brexit-samkomulag. Verði samningurinn samþykktur mun Bretland ganga úr sambandinu þann 29. mars. Verði samkomulagið fellt verður kosið á morgun um það hvort Bretland yfirgefi ESB án samnings.

Upphaflega stóð til að umrædd atkvæðagreiðsla færi fram í lok febrúar en henni var frestað. May fór fram á það við ríkisstjórn sína að henni yrði frestað á nýjan leik til að freista þess að ná betri samningi við sambandið en það var fellt. Heimildarmenn The Guardian herma að samningalota sem stóð yfir um helgina hafi verið „upp, síðan niður, upp á ný en því miður endað illa“.

Þetta er í annað sinn sem þingið kýs um umrætt samkomulag. Fyrri kosningin fór fram 15. janúar en niðurstaða hennar var sögulegt afhroð forsætisráðherrans. Aðeins 202 greiddu atkvæði með samkomulaginu en 432 gegn því. Í þingflokki Íhaldsmanna, flokki forsætisráðherrans, eru 312 þingmenn.

Fari það svo í dag að samningurinn verði felldur á ný og að þingið hafni því að yfirgefa ESB án samnings mun þriðja atkvæðagreiðslan fara fram á fimmtudag. Þar mun þingið kjósa um það hvort það óski eftir því að fresta útgöngunni en hún er fyrirhuguð 29. mars. Verði samþykkt að óska eftir fresti er Bretland upp á náð ESB komið en þjóðarleiðtogar ríkjanna myndu þá koma saman 21. mars til að kjósa um hvort veita skuli slíkan frest.

Fáist slíkt samþykki ekki er komin upp pattstaða. Til að forðast samningslausa útgöngu yrði annar hvor aðilinn að gefa afslátt af sínum kröfum eða breska þingið að kjósa um fyrirliggjandi samning í þriðja sinn. Ella verður „hart Brexit“ að veruleika með tilheyrandi óvissu um hvað muni fylgja í kjölfarið.

Fundur May og Junckers hófst seint í gærkvöldi. Fundinum var ekki lokið þegar Fréttablaðið fór í prentun.