Júlímánuður í Bandaríkjunum fer ekki vel af stað en á fyrstu fimm dögum mánaðarins hafa Bandaríkin þrívegis slegið eigið met í staðfestum kórónuveirusmitum á dag. Fjórtán ríki Bandaríkjanna náðu metfjölda af tilkynntum smitum á einum degi í byrjun mánaðarins.

Á fyrstu fimm dögum júlímánaðar voru í heildina tilkynnt um 250.000 staðfest kórónuveirusmit á landsvísu. Staðfest smit í Texas og Flórída fóru yfir 200.000 í heildina á sunnudaginn. Þetta kemur fram í frétt New York Times.

Ástandið í Flórída er sérstaklega slæmt um þessar mundir og hefur borgarstjóri Miami-Dade sýslunnar, Carlos A. Gimenez, ákveðið að loka veitingastöðum, samkomustöðum og líkamsræktarstöðvum, til að reyna að hægja á útbreiðslu veirunnar. Lokunin tekur gildi á miðvikudaginn.

Stanslaust stuð á Belle Meade eyjunni

Næturklúbbum í Miami var lokað í mars en það hefur ekki stöðvað heimamenn frá því að halda heljarinnar veislur við sjávarbakkann í efnaðri hverfum Miami. Íbúar Belle Meade eyjunnar, sem liggur við strönd Flórída, hafa þurft að lifa við endalaust partýstand á nær öllum tímum sólarhringsins.

Samkvæmt NYT hafa nágrannar þurft að kaupa sér eyrnatappa til að geta sofið vegna stöðugra veisluhalda djammþyrsta íbúa borgarinnar. Heilbrigðisyfirvöld í Miami segja að þessar fjöldasamkomur eigi stóran þátt í aukningu smita í ríkinu.

„Við erum að fá hundruðir manna á eyjunna daglega,“ segir Jeri Klemme Zaic, hjúkrunarfræðingur sem hefur búið á eyjunni í 25 ár í samtali við NYT. „Svona dreifist veiran: Með fólki sem er sama um náungann,“ segir Jeri. Lögreglan og borgaryfirvöld hafa ítrekað reynt að stöðva veisluhöld á eyjunni.

Yfirvöld hafa biðlað til fólks um hætta þessu partýstandi en yfir 10.000 ný smit greindust í Flórída á sunnudaginn.

Það eru stór vandamál í Houston um þessar mundir en bæði gengur skimun illa og spítalar eru yfirfullir.
Ljósmynd/EPA

Yfirvöldum í Texas hefur heldur ekki gengið vel að stöðva útbreiðslu veirunnar og eru spítalar víða yfirfullir. Í Starr-sýslu Texas-ríkis sem liggur við landamæri Mexikó hafa komið upp mörg hundruð tilfelli og eru öll spítalarúm full.

Margar af stærri ríkisstofnunum í Bandaríkjunum hafa ákveðið að opna skrifstofur sínar að nýju og óttast margir að það gæti valdið frekari aukningu í smitum.

Samtök spítala í Bandaríkjunum, American Hospital Association, Samtök lækna, American Medical Association og samtök hjúkrunarfræðinga, American Nurses Association, birtu opið bréf til Bandaíkjamanna í gær þar sem landsmenn eru hvattir til að vera með grímu ef þeir ætla vera meðal almennings.

„COVID-19 er ekki lokið og við verðum að streitast á móti þeirri hugsun að halda að enduropnun þýði að allt er orðið eðlilegt,“ segir í bréfi samtakanna þriggja.