Eurovision Daði og Gagnamagnið munu notast við upptökur frá annari æfingu sinni sem fram fór 13. maí þar sem hljómsveitin fær ekki að stíga út fyrir hóteldyrnar og taka þátt í síðara undankvöldi Eurovision sem fram fer í kvöld.

Fréttin af smiti Jóhanns Sigurðar Jóhannssonar, meðlims í Gagnamagninu, fór eins og eldur um fréttamiðla Evrópu enda Gagnamagninu spáð góðu gengi. Þeim var spáð sigri í fyrra og eru trúlega með stærstu stjörnum keppninnar í ár. AP-fréttastofan, breska ríkisútvarpið BBC og flestir skandinavísku miðlarnir slógu öll upp sem stórfrétt að Daði myndi ekki stíga á svið í kvöld.

Jóhann tjáði sig með tárin í augunum á Instagram-síðu Gagnamagnsins. Hann væri í áfalli, vonsvikinn og almennt sorgmæddur yfir Covid-niðurstöðunni. Honum leið þó vel og var einkennalaus.

„Þetta hefur verið svo lengi í undirbúningi. Við erum virkilega stolt af upptökunni okkar, æfingin gekk vel og ég vona að við gerum ykkur stolt, Íslendinga og stuðningsfólk,“ sagði Jóhann. Hann bætti við að hann væri enn að melta tíðindin. „Ég gerði allt mitt til að vera öruggur en eitthvað hefur farið úrskeiðis,“ sagði hann og þerraði tárin.

Þjóðarsálin bærðist vart um tíma í gær eftir tilkynninguna enda ekki oft sem Íslandi er spáð svo góðu gengi í Eurovision. Daði hefur verið við toppinn í veðbönkum frá því lagið 10 years var frumflutt.

Sviptingar þriðjudagsins með frammistöðu Úkraínu ýtti Daða reyndar niður og þá hafa Ítalía og Frakkland verið að stíga upp. Daði var í fimmta sæti í veðbönkum í gær.

Í tilkynningu Eurovision segir að Gagnamagnið hafi einungis viljað koma fram saman sem hópur. Ekki hafi verið vilji til að skilja neinn eftir.

Flosi Jón Ófeigsson, formaður FÁSES.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gagnmagns-hópurinn mun halda áfram í sóttkví og einangrun næstu daga og munu heilbrigðisyfirvöld í Hollandi halda áfram að fylgjast með hópnum, samkvæmt tilkynningunni.

Í kveðju Daða til aðdáenda sinna á Twitter segir hann að öllum í hópnum líði vel.

Flosi Jón Ófeigsson, formaður FÁSES, segir að félagsmenn séu í áfalli eftir tíðindin en þó hvergi bangnir og hafi fulla trú á velgengni Daða og Gagnamagnsins í keppninni.

Fáir eru betur að sér í Eurovision-fræðum en Flosi og hann hefur litlar áhyggjur þó það verði notast við upptöku frá æfingu.

„Þau negldu hana,“ segir hann um seinni æfingu hópsins sem verður það sem Evrópubúar munu sjá. „Við erum bara leið fyrir hönd þeirra að fá ekki að upplifa þessa stund að fá að vera uppi á sviði frammi fyrir áhorfendum.“

Flosi segir langt síðan að hann hafi verið jafn viss um að Ísland muni fljúga áfram í aðalkeppnina.

„Við í FÁSES tökum Pollýönnu á þetta og mætum á Kex Hostel og styðjum okkar framlag og svo aftur á laugardag,“ segir Flosi áður en hann lofar upp í ermina á sér.

„Íslendingar mega alveg búast við bombu, því æfingin var alveg stórkostleg hjá þeim.“