Kóróna­veiru­smit kom upp á sængur­legu­deild Land­spítalans í gær. Þar dvelja ný­bakaðar mæður og börn þeirra en faðir barns hafði verið þar inni með móður þess í fimm daga áður en í ljós kom að hann væri smitaður. Vísir greindi fyrst frá.


Barn fólksins fæddist á þriðju­daginn en þau voru svo færð með það á sængurlegu­deildina. Maðurinn fékk svo ein­kenni CO­VID-19 í gær­morgun og var þá prófaður fyrir kóróna­veirunni. Smitið var svo stað­fest í gær­kvöldi.


Ingi­björg Hreiðars­dóttir yfir­ljós­móðir segir í sam­tali við Vísi að nú sé unnið að því í sam­starfi við far­sóttar­nefnd Land­spítalans að rekja ferðir fólksins og koma öllum sem þau hafa um­gengist í sótt­kví.

„Þetta getur verið alveg tölu­vert stór hópur. Starf­semin er mjög við­kvæm. Hún er mjög sér­hæfð eins og öll önnur starf­semi á spítalanum og við getum auð­veld­lega misst niður alla starf­semi ef að smit breiðist víða út,“ segir hún.

„Þetta er langur tími og við þurfum nú að fara vel yfir hverjir hafa verið að hitta við­komandi. Auð­vitað er þetta virki­lega mikið á­hyggju­efni en við verðum bara að taka einn dag í einu,“ heldur hún á­fram og segir að reglur á deildinni og spítalanum hafi nú verið hertar.


Þá segir hún að stjórn­endur fæðingar­þjónustunnar hafi tekið þá á­kvörðun að makar geti ekki lengur heim­sótt mæður og ný­bura á með­göngu- og sængur­legu­deildinni eftir fæðingu. „ Þetta er ekki auð­veld á­kvörðun en hún er talin nauð­syn­leg til að sporna við út­breiðslu af CO­VID-19.“