Heil­brigðis­starfs­fólk í Hong Kong hefur gripið til verkfalla til þess að krefjast þess að landa­mærum sjálf­stjórnar­héraðsins verði lokað vegna kóróna­veirunnar. Telja margir að það sé eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að fólk sýkt af veirunni komist til borgarinnar.

Einungis sex­tán hafa greinst með veiruna í Hong Kong, mun færri en í ná­granna­löndunum. Í dag var hins vegar til­kynnt um fyrsta dauðs­fallið af völdum hennar í borginni, en það er annað dauðs­fallið utan Kína.

Ekkert annað dugi

Í Hong Kong hefur verið skortur á öndunar­grímum og öðrum sýkinga­varnar­búnaði og gerir það heil­brigðis­starfs­mönnum erfitt fyrir.

„Ef við lokum ekki landa­mærunum munu engin úr­ræði nægja til takast á við alla sem munu sýkjast,“ hefur Al Jazeera eftir Kaddy Chan, starfs­manni á sjúkra­húsi í Kína.

Ó­raun­hæf að­gerð

Þó að Hong Kong geti lokað landa­mærunum að Kína segja stjórn­völd þar að sú að­gerð væri ó­raun­hæf auk þess að vera í and­stöðu við ráð­leggingar Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunarinnar, sem hefur lagst gegn ferða­tak­mörkunum og höftum.

Þó hefur verið brugðist við verk­föllunum með því að loka nokkrum leiðum yfir landa­mærin til Kína, en flug­völlur borgarinnar og tvær hafnir verða enn opnar fyrir fólki sem kemur frá megin­landi Kína. Síðasta sunnu­dag komu meira en sjö þúsund manns til Hong Kong í gegnum hafnirnar eftir að hafa fagnað kín­versku ára­mótunum í Kína.

Varð illa úti í SARS far­aldrinum

Al­menningur hefur síðustu daga mót­mælt því að stjórn­völd hyggi á að reisa ein­angrunar­búðir fyrir þá sem greinast með kóróna­veiruna, ná­lægt í­búða­byggðum. Koma þau mót­mæli í kjöl­farið á mánaða­löngum mót­mælum gegn stjórn­völdum vegna frum­varps sem hefði leyft fram­sala íbúa Hong Kong til Kína.

Hong Kong varð illa úti í SARS far­aldrinum árið 2003, en um tuttugu prósent þeirra sem smituðust þá voru í Hong Kong og voru 299 dauðs­föll skráð af völdum SARS í borginni. Minnir út­breiðsla kóróna­veirunnar nú því marga ó­þægi­lega mikið á þá at­burði.