Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá Landlæknisembættinu, segir mjög erfitt að segja til um hversu langan tíma það taki fyrir kórónaveiruna að ganga hér yfir.

Níu tilfelli af COVID-19 sjúkdómnum eru nú staðfest á Íslandi eftir að sex einstaklingar bættust í gær í hóp þeirra þriggja sem áður voru greindir með kórónaveiruna. Sá fyrsti sem greindist er nú kominn af Landspítalanum og í einangrun heima hjá sér. Hinir sex eru í einangrun í heimahúsum.

„Þessi veira er dálítið smitandi og þetta gæti tekið um einn til tvo mánuði ef ekkert væri að gert,“ segir Þórólfur Guðnason. Hins vegar sé verið að reyna að hægja á útbreiðslu veirunnar. Það geti því tekið lengri tíma fyrir veiruna að ganga yfir en toppurinn yrði ekki eins hár og ef ekkert væri að gert. „Tilgangurinn er bæði að reyna að lækka toppinn og fækka tilfellunum sem mest þannig að þetta verði viðráðanlegt á hverjum tíma.“

Þórólfur segir að hugsanlega geti tekið meira en tvo mánuði fyrir veiruna að ganga yfir. „Svo gæti það gerst að veiran deyi út. Veiran lifir ekki nema ákveðinn tíma utan líkamans og ef hún fær ekki nýtt fóður til að fjölga sér af því að fólk er lokað af þá deyr hún út,“ útskýrir hann.

Samkvæmt stöðuskýrslu almannavarna síðdegis í gær eru 260 manns nú í sóttkví í heimahúsum hér á landi vegna kórónaveirunnar að tilmælum yfirvalda. Ekki er sérstaklega fylgst með því að fólkið haldi sóttkvína. „Við erum að reyna að höfða til fólks með því að skýra út hvað það er mikilvægt að vera í sóttkví. Ef fólk fer ekki eftir þessu, þá gæti þetta orðið einhvern veginn sem við viljum ekki,“ segir Þórólfur.

Þeir sem nú er mælst til að séu í sóttkví eiga sameiginlegt að hafa dvalið á Ítalíu þar sem kóróna­veiran er orðin svo útbreidd að almannavarnir hér hafa lýst allt landið sem hættusvæði. Þeim sem snúa þaðan á næstunni verður bent á að fara í sóttkví. Þetta á hins vegar ekki við um erlenda ferðamenn sem hingað koma frá Ítalíu eða hafa dvalið þar nýlega.

„Útlendingar sem koma hingað eru miklu minna innan um annað fólk og ekki í eins náinni snertingu við aðra. Þá eru minni smitlíkur vegna þess að það þarf töluvert náinn samgang á milli einstaklinga til að smit verði,“ segir Þórólfur. Útlendingarnir komist ekki í nána snertingu við eins marga og Íslendingar sem séu í tengslum við fjölskyldu, vini og aðra.

„Í annan stað eru þessir útlendingar miku styttra hérna, eru hér kannski frá tveimur upp í fimm daga á meðan Íslendingarnir eru hér áfram og geta leikið lausum hala og smitað fleiri,“ heldur Þórólfur áfram. Þá bendir hann á að ef útlendingur, sem verið hefur á Ítalíu og er á leið til Íslands frá þriðja landi í fárra daga dvöl, sé spurður að því hvort hann sé að koma frá Ítalíu sé mjög líklegt að hann svari því neitandi ef hann viti að ella bíði tveggja vikna sóttkví á Íslandi.

„Svo í fjórða lagi er þetta kannski það stór hópur að við getum ekki hýst allan þann hóp í tvær vikur. Þetta er bæði mjög erfitt í framkvæmd og mun sennilega ekki skila mjög miklu. Þess vegna erum við að reyna að einbeita okkur að Íslendingunum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.